Hvorki Sigríður Kristinsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs né bæjarstjóri hafa svarað fyrirspurn Fjarðarfrétta um það hvers vegna tilkynning Þjóðskrár um úrskurð um lögheimili bæjarfulltrúans Einars Birkis Einarssonar var ekki kynntur á bæjarstjórnarfundi sl. miðvikudag.
Þjóðskrá úrskurðaði sl. miðvikudag að stofnunin hafi fellt niður skráningu Einars Birkis að Grænukinn 1 og skráð lögheimili hans að Álfaheiði 13 í Kópavogi frá og með viðmiðunardegi þjóðskrár, 5. maí 2018.
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Sigríði Kristinsdóttur sviðsstjóra stjórnsýslusviðs að tilkynningin hafi borist klukkutíma áður en bæjarstjórnarfundur hófst.
Því vekur það furðu að það hafi ekki verið sent áfram til bæjarfulltrúa og það kynnt í upphafi fundar.
Einar Birkir mætti til fundar og var með á hópmynd af bæjarstjórn, vitandi að hann var ekki gjaldgengur í bæjarstjórn. Hins vegar virtust aðeins örfáir aðrir bæjarfulltrúar vita til úrskurðarins en Borghildur Sturludóttir hafði verið boðuð til fundar af bæjarstjóra, örstuttu fyrir fundinn.
Forseti las svo upp tilkynningu sem Einar Birkir hafði hripað niður á blað þar sem hann upplýsir um úrskurðinn og segist því „ekki muni sitja þennan bæjarstjórnarfund”. Hvarf hann af vettvangi áður en fundur hófst.
Bæjarstjóri afhenti greinilega ekki bæjarstjórn tilkynninguna frá Þjóðskrá og því var afgreiðsla bæjarstjórnar ekki önnur en sú að Einar sæti ekki þennan einstaka fund í stað þess að staðfesta að frá 5. maí hafi Einar Birkir ekki verið gjaldgengur sem bæjarfulltrúi og varamaður hans, Borghildur Sturludóttir, væri úrskurðuð sem löggildur bæjarfulltrúi frá sama tíma.
Er þetta í annað sinn sem bæjarstjórn virðist klúðra afgreiðslu mála um setu í bæjarstjórn en skemmst er að minnast klúðri í afgreiðslu bæjarstjórnar á tilkynningu Guðlaugar Kristjánsdóttur um ótímabundið leyfi. Þá var bókað að Borghildur væri fullgildur bæjarfulltrúi en sú bókun var aldrei felld úr gildi þegar Guðlaug mætti óvænt og án allra skýringa eða afgreiðslu í bæjarstjórn á ný.
Af hverju var bréfið ekki kynnt í bæjarstjórn?
Þar sem hvorki Hvorki Sigríður Kristinsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs né Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri hafa svarað fyrirspurn blaðsins er fyrirspurnin ítrekuð hér opinberlega:
„Sæl Sigríður.
Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir þér að tölvupóstur hafi borist Hafnarfjarðarbæ, um klukkutíma áður en bæjarstjórnarfundur hófst, þar sem fram kom úrskurður Þjóðskrár um lögheimili Einars Birkis Einarssonar.
Hvers vegna var þessi tölvupóstur lagður fyrir á fundi bæjarstjórnar?
Þess í stað var lesin upp tilkynning frá Einari og í raun engin afgreiðsla á málinu á bæjarstjórnarfundi, frekar en þegar Guðlaug kom til starfa aftur.“
Kl. 16:32 barst eftirfarandi svar frá Sigríði Kristinsdóttur, bæjarlögmanni og sviðsstjóra stjórnsýslusviðs:
„Um kl. 16:00 miðvikudaginn 23. maí þá kom bréf frá Þjóðskrá Íslands til Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem tilkynnt var að Þjóðskrá Íslands hefði fellt niður skráningu lögheimilis Einars Birkis í Hafnarfirði og lögheimili hans á viðmiðunardag kjörskrár 5. maí 2018 væri í Kópavogi. Vakin var athygli viðkomandi sveitarstjórnar á þessu sbr. III. kafla laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórn. Bréfið frá Þjóðskrá Íslands varðar breytingu á kjörskrá.
Í 1. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir: „missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi skal hann víkja úr sveitarstjórn.“
Einar Birkir sendi tilkynningu til bæjarstjórnar um að Þjóðskrá Íslands hefði úrskurðað um lögheimili hans og í kjölfar þess myndi hann ekki sitja bæjarstjórnarfundinn.
Hafnarfjarðarkaupstaður hefur ekki fengið tilvitnaðan úrskurð í hendur, heldur aðeins ofangreinda tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands vegna breytingu sem gera þarf á kjörskrá.“
Fjarðarfréttir ítrekaði spurninguna og benti á að það væri ekki rétt að bréfið hafi fjallað um kjörskrá eins og skýrt kemur fram í efnisyfirsögn bréfsins; Efni: Ákvörðun Þjóðskrár Íslands vegna flutnings lögheimilis í þjóðskrá.“
Var Sigríður einnig spurð eftirfarandi spurninga:
- Á hvaða forsendum var Borghildur boðuð til fundar?
- Var ekki eðlilegt í ljósi umræðna um lögmæti Einars Birkis sem bæjarfulltrúa að þessi tilkynning sem tekur af allan vafa um að Einar Birkir sé ekki lengur gjaldgengur bæjarfulltrúi, að það væri lagt fyrir bæjarstjórn?