Fyrsta skóflustungan að nýjum íbúðakjarna að Arnarhrauni 50 var tekin sl. föstudag en þar verður byggður sex íbúða kjarni fyrir fatlað fólk ásamt sameiginlegu rými. Auk þess verður sérbýli fyrir starfsfólk.
Gengið var til samninga við Framkvæmdafélagið Arnarhvoll ehf. um bygginguna í árslok 2018 en áætluð verklok eru í mars 2020.
Þegar hefur þremur íbúðum af sex verið úthlutað og væntanlegir íbúar þeirra tóku fyrstu skóflustunguna ásamt fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar og verktakans.
Á lóðinni, sem er neðst við Arnarhraunið var áður leikvöllur sem var aflagður en þar átti svo að byggja hefðbundin íbúðarhús en þau áform urðu að engu í hruninu.
Hafnarfjarðarbær mun eiga og reka íbúðirnar og hefur verið stofnað sjálfstætt félag um reksturinn, Heimilin íbúðarfélag hses.
Biðlisti er í Hafnarfirði eftir sérhæfðu húsnæði fyrir fatlað fólk og er bygging slíks húsnæðis á Arnarhrauni liður í að ganga á þann biðlista en einnig er í undirbúningi bygging íbúða efst við Öldugötu auk þess sem ákveðið hefur veið að lóðin Smyrlahraun 41a, þar sem áður var leikskóli, verði nýtt undir íbúðakjarna fyrir fatlað fólk.
Byggingarleyfi hefur ekki verið veitt fyrir byggingunum en þann 11. janúar sl. var afgreiðslu á leyfi hafnað þar sem gögn voru ófullnægjandi. Arkitekt húsanna er Svava Jónsdóttir.