Við skoðun löggilts meindýraeyðis á safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Hafnarfirði á Linnetsstíg 6 nýlega kom í ljós að veggjatítlur eru í þakviði hússins.
Í mati segir að ummerki eftir veggjatítlur séu í nánast öllum þaksperrum. Enn fremur fundust dauðar bjöllur og við greiningu kom í ljós að um fullorðnar veggjatítlur var að ræða. Eingöngu eru títlur í viðnum í þakinu skv. tilkynningu frá kirkjunni.
Húsið Linnetsstígur 6 er byggt árið 1920. Það er þrílyft timburhús með steyptum kjallara/fyrstu hæð. Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði hefur átt húsið og nýtt undir safnaðarheimili í um 20 ár. Safnaðarheimilið er í notkun nánast alla daga og að auki eru þar skrifstofur og viðtalsherbergi tveggja presta safnaðarins og annars starfsfólks.
Veggjatítlan þrífst helst í rökum viði og telja menn mögulega að hún hafi grasserað þarna í marga áratugi.
„Þetta er Fríkirkjunni þungbært og ljóst að óbætt tjón getur hlaupið á tugum milljóna króna,“ segir Einar Sveinbjörnsson, formaður safnaðarstjórnar.
Í turni kirkjunnar, sem er einnig byggð úr timbri árið 1913, fundust í sömu skoðun gömul og mjög staðbundin ummerki eftir títlur hugsanlega frá fyrri tíð.
Segir Einar að mikil áhersla verði lögð á það að auka eftirlit og verja kirkjuna.
Safnaðarstjórn hefur ákveðið að fara að ráðum fagaðila og hefja nú þegar vinnu sem lýtur að því að hefta frekari útbreiðslu. Það er gert með hitun og eitrun.
Segir Einar enga hættu vera á ferðum fyrir þá sem heimsækja safnaðarheimilið. Veggjatítlan smitast ekki eða ferðast með fólki. „Þær eru saklausar að öðru leyti en því að þær éta í sundur burðarvið á löngum tíma,“ segir Einar.
„Þrátt fyrir þessa ágjöf er Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði sterkur í sínu samfélagi og mun finna leiðir og lausnir með sínu fólki og í samstarfi aðila til að laga og jafnvel endurbyggja að mestu safnaðarheimilið á Linnetsstíg 6 í hjarta Hafnarfjarðar,“ segir Einar Sveinbjörnsson í tilkynningu.