fbpx
Mánudagur, nóvember 4, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAtvinnulífVerkstjóra- og stjórnendafélag Hafnarfjarðar 80 ára

Verkstjóra- og stjórnendafélag Hafnarfjarðar 80 ára

Það var í desember árið 1940, nánar tiltekið 6. þess mánaðar, að sjö hafnfirskir verkstjórar komu saman á skrifstofu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar til að stofna með sér félag, Verkstjórafélag Hafnarfjarðar. Þar með hófst saga félags sem enn starfar með blóma og fagnar 80 ára afmæli um þessar mundir.

Stökkið inn í nútímann

Þetta hernámsár 1940 var íslenskt þjóðfélag að taka stórt stökk inn í nútímann. Bönd bændasamfélagsins voru tekin að trosna og þéttbýlismyndun meiri en nokkru sinni fyrr. því fylgdi mikil gróska í starfsemi stéttarfélaga og fór óðum að skipuleggja sig í hagsmunasamtökum. Verkstjórar voru þar engin undantekning. Verkstjórasamband Íslands hafði verið stofnað tveimur árum fyrr og undir lok þessa sögulega árs urðu til þrjú ný verkstjórafélög sem áttu eftir að verða burðarásinn í starfsemi sambandsins næstu árin; Verkstjórafélag Hafnarfjarðar, Verkstjórafélag Skagfirðinga og Austur-Húnvetninga og Verkstjórafélag Akureyrar og nágrennis.

Stofnfélagar Verkstjórafélags Hafnarfjarðar voru sjö talsins árið 1940. Þessi mynd er tekin árið 1945 og þá hafði félagsmönnum fjölgað nokkuð. Sitjandi frá vinstri: Þorvarður Þorvarðarson, Gísli Sigurgeirsson, ritari fyrstu stjórnar, Þórður Þórðarson, sem lengst allra átti eftir að sitja í formannssætinu, Haraldur Kristjánsson, fyrsti formaður, Torfi Gíslason, Jón Einarsson, Gunnar Jónsson og Jóhannes Sigfússon, fyrsti gjaldkeri. Standandi: Jón Þór Jónsson, Sigurður Þorbjörnsson, Óskar Evertsson, Þorleifur Guðmundsson, Magnús Magnússon og Þorbjörn Eyjólfsson.

Þegar stofnfélagalisti Verkstjórafélags Hafnarfjarðar er skoðaður kemur ekkert á óvart að fimm þeirra koma úr fiskvinnslu og útgerð: Haraldur Kristjánsson, sem varð fyrsti formaður félagsins, starfaði hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, Jóhannes Sigfússon vann hjá útgerðarfélaginu Akurgerði, Þorbjörn Eyjólfsson hjá Einari Þorgilssyni & Co., Þorvarður Þorvarðsson hjá fiskverkuninni Þórarni Böðvarssyni og Torfi Gíslason hjá fiskverkun Lofts Bjarnasonar. Tveir stofnfélaga unnu við vegavinnu og fleira, þeir Gísli Sigurgeirsson og Jón Einarsson.

Ekki bara brauðstrit

Verkstjórafélag Hafnarfjarðar var formfast félag strax í byrjun. Félögum fjölgaði lítið framan af enda inntökuskilyrðin ströng. Hins vegar var starfsemin strax þróttmikil og fundir um hin ýmsu mál haldnir reglulega. Árið 1942 var stofnaður sérstakur styrktarsjóður sem óx og dafnaði næstu áratugina. Kjaramál verkstjóra í Hafnarfirði komust strax á dagskrá félagsins og voru þau t.d. aðalumræðuefni á fyrsta félagsfundinum. Áhersla var lögð á að bæta kjör verkstjóra í bænum og samræma launin á milli vinnustaða. Þá tók félagið upp það nýmæli að krefjast yfirvinnugreiðslna en það hafði lítt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði til þessa.

Verkstjórafélag Hafnarfjarðar var ekki aðeins hagsmunafélag heldur lét það menningar- og afþreyingarmál félagsmanna og fjölskyldna þeirra sig miklu varða. Fram kemur í fundargerðarbókum að árið 1943 hóf félagið að standa fyrir dansleikjum og skemmtiferðum. Undir stríðslok hóf félagið að herja á verkstjóra í Hafnarfirði að ganga formlega í félagið enda nutu þeir flestir ýmissa réttinda fyrir baráttu þess. Árið 1949 voru félagsmenn orðnir 19 talsins og áratug síðar voru félagar 30.

Í forystu sambandsins

Í stuttri yfirlitsgrein er farið hratt yfir sögu en segja má að fyrstu þrjátíu ár Verkstjóraféags Hafnarfjarðar hafi starfsemin nokkuð verið með kyrrum kjörum. Félagsmenn létu sig því málefni verkstjóra á landsvísu nokkru varða og margir sátu í áranna rás í stjórn VSSI eða voru þar varamenn. Fyrsti Hafnfirðingurinn til að setjast í stjórn Verkstjórasambandsins var Gísli Sigurgeirsson sem var ritari þess á árunum 1943-1945. Lengst allra starfaði þar Þórður Þórðarson sem var meðstjórnandi 1946-1949 og 1951-1959 og svo varaforseti sambandsins frá 1959-1969. Steindór Gunnarsson, núverandi formaður var fyrst kjörinn í stjórn sambandsins árið 1999 og sat hann þar samfellt í 18 ár. Núverandi fulltrúi Verkstjóra- og stjórnendafélags Hafnarfjarðar í stjórn STF er Kjartan Salómonsson.

Þess má geta að vegna starfa á vettvangi sambandsins hafa fjórir forystumenn Verkstjórafélags Hafnarfjarðar verið kjörnir heiðursfélagar Verkstjórasambands Íslands og Sambands stjórnendafélaga. Það eru þeir Þórður Þórðarson, sem kjörinn var 1981, Bergsveinn Sigurðsson, sem var formaður VFH í áratug og sat lengi í stjórn VSSÍ, kjörinn árið 1988, Reynir Kristjánsson, en hann var lengi formaður stjórnar sjúkrasjóðs og gjaldkeri í Verkstjórafélagi Hafnarfjarðar í 40 ár og svo Steindór Gunnarsson, kjörinn heiðursfélagi STF árið 2017.

Forystan í Straumsvík

Þegar kemur fram á 8. áratuginn gera hafnfirskir verkstjórar sig mjög gildandi í kjarabaráttu stéttarinnar en það var vegna sterkra ítaka þeirra hjá Íslenska álfélaginu í Straumsvík. Þar voru margir félagsmenn starfandi auk allmargra úr Verkstjórafélagi Reykjavíkur. Eins og flestar starfsstéttir í álverinu tóku verkstjórar þá stefnu að gera sína eigin kjarasamninga við fyrirtækið og varð satt að segja vel ágengt. Tímamótasamningar voru gerðir 1969 sem m.a. fólu í sér fleiri veikindadaga á launum, hærri líftryggingu, meiri starfsaldurshækkanir o.fl. Þá var fyrsti sjúkrasjóður verkstjóra stofnaður þar árið 1970. Næstu ár á eftir má segja að verkstjórar í álverinu hafi í raun mótað kjarabaráttu sambandsins. Þar lögðu félagsmenn Verkstjórafélags Hafnarfjarðar sannarlega hönd á plóg.

Átta formenn frá upphafi

Formenn Verkstjórafélags Hafnarfjarðar hafa ekki verið margir í 80 ára sögu félagsins eða aðeins átta talsins. Þeir eru þessir:

    1. Haraldur Kristjánsson 1940-1946
    2. Þorleifur Guðmundsson 1946-1948
    3. Þórður Þórðarson 1948-1974
    4. Eiríkur Helgason 1974-1979
    5. Kjartan Jónsson 1979-1983
    6. Bergsveinn Sigurðsson 1983-1993
    7. Erlingur Kristjánsson 1993-1999
    8. Steindór Gunnarsson 1999-

Félagsmönnum fer fjölgandi

Þegar litið er um öxl er ljóst að samtök þau, sem hafnfirskir verkstjórar settu á laggirnar einn vetrardag fyrir 80 árum, eiga sér merka sögu. Félagið, sem nú heitir Verkstjóra- og stjórnendafélag Hafnarfjarðar, hefur staðið traustan vörð um kjara- og réttindamál stjórnenda í hafnfirskum fyrirtækjum og stofnunum og um leið tekið virkan þátt í að byggja upp samtök stjórnenda á landsvísu. Félagsmenn eru rétt um 300 talsins um þessar mundir og fer fjölgandi.

Steindór Gunnarsson, formaður Verkstjóra- og stjórnendafélags Hafnarfjarðar.

Steindór Gunnarsson segir Verkstjóra- og stjórnendafélag Hafnarfjarðar sé stærra og sterkara en nokkru sinni fyrr og hafi enn margvíslegu hlutverki að gegna. Tímamót urðu árið 2013 þegar nafni félagsins var breytt og stjórnendahugtakinu bætt við hið forna heiti þess. Hann segir að allt of margir stjórnendur í fyrirtækjum og einyrkjar á vinnumarkaði séu utan stéttarfélaga og að nauðsynlegt sé að ná til þeirra og fá þá inn í félagið. Því miður séu þeir aðilar án trygginga og það geti kostað mikið ef eitthvað komi upp á.

„Við höfum gert átak í því síðustu ár að fá stjórnendur til að opna augu sín fyrir mikilvægi þess að vera í stjórnendafélagi. Eins og önnur verkstjórafélög ákváðum við að gera nafnbreytingu fyrir nokkrum árum  vegna þess að við töldum að félagið þyrfti að höfða til fleiri en eingöngu verkstjóra; einnig til stjórnenda í öllum greinum sem stýra verkefnum og fólki.“

Steindór hvetur alla til að skoða kosti þess að vera í stjórnendafélagi en þau eru nú 11 talsins innan vébanda Sambands stjórnendafélaga. „Hjá okkur ertu nefnilega ævifélagi, þ.e. þú nýtur allra réttinda allt til enda ef þú heldur tryggð við þitt félag út starfsævina. Hjá flestum öðrum stéttarfélögum ertu því miður afmáður af félagaskránni þremur mánuðum eftir að þú lýkur störfum og missir öll áunnin réttindi, m.a. til aðstoðar úr sjúkrasjóðum! Við viljum halda vel utan um okkar fólk ævina á enda og það finnst okkur mikilvægt,“ segir Steindór Gunnarsson formaður.

Heimasíða Verkstjóra- og stjórnendafélags Hafnarfjarðar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2