Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Víðistaðakirkju 10 milljóna kr. styrk sem framlag Hafnarfjarðarbæjar til þess að unnt verði að ráðast í nauðsynlegt viðhald á þaki og gluggum kirkjunnar.
Vegna ástandsins liggur eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskur eftir Baltasar Samper, undir skemmdum.
Löngu tímabær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti Víðistaðakirkju hefur staðið yfir auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkjubyggingunni.
Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina að sögn Hjörleifs Þórarinssonar, formanns sóknarnefndar.
Markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.
70 milljón kr. viðgerð
Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til framkvæmdarinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins.
„Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafnfirðinga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skólaútskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni,“ segir Hjörleifur Þórarinsson, formaður sóknarnefndar.