fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirVíðistaðakirkja fær 10 millj. kr. styrk frá Hafnarfjarðarbæ til viðhalds

Víðistaðakirkja fær 10 millj. kr. styrk frá Hafnarfjarðarbæ til viðhalds

70 milljón kr. viðgerðir standa yfir á kirkjunni

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Víðistaðakirkju 10 milljóna kr. styrk sem framlag Hafnarfjarðarbæjar til þess að unnt verði að ráðast í nauðsynlegt viðhald á þaki og gluggum kirkjunnar.

Vegna ástandsins liggur eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskur eftir Baltasar Samper, undir skemmdum.

Löngu tíma­bær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti Víðistaðakirkju hefur staðið yfir auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkju­bygg­ingunni.

Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina að sögn Hjörleifs Þórarinssonar, formanns sóknarnefndar.

Markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.

70 milljón kr. viðgerð

Heildarkostnaður við þessar fram­kvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til fram­kvæmd­arinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins.

„Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafn­firð­inga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skóla­útskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnar­fjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni,“ segir Hjörleifur Þórarinsson, formaður sóknarnefndar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2