Einu sinni voru sjoppur á hverju horni, margar breyttust í myndbandaleigur en flestar eru horfnar ef bensínstöðvar eru undanskildar.
En þeir Snorri Guðmundsson, Sindri Þór Jónsson og Jökull Ágúst Jónsson voru ekki á þeim buxunum að tími sjoppanna væri liðinn er þeir ákváðu að opna sjoppu að Flatahrauni 21.
Fékk hún það frumlega nafn, Nýja sjoppan, enda ekki margar nýjar sjoppur um þessar mundir.
Að sögn Jökuls Ágústs, sem er rekstrarstjóri Nýju sjoppunnar, er þetta bland af sjoppu og skyndibitastað. Þar er boðið upp á hamborgara, snitsel, báta, samlokur og nokkrar útfærslur af pylsum auk þess sem á matseðlinum má sjá Gelgjufæði, sem er franskar kartöflur, ostur og sósa.
Þeir hafa reynt að halda verðinu lágu eins og hefur verið í Bláu sjoppunni í Starengi, sem er að hluta í eigu sömu aðila.
Auk hefðbundinna gosdrykkja, bjóða þeir upp á Mønster gosdrykki sem þeir flytja sjálfir inn og hafa verið vinsælir.
Nýja sjoppan var opnuð 10. janúar og hafa matartilboðin verið vinsæl enda verðin mjög lág að þeirra sögn.
Þeir Sindri og Snorri reka einnig Polo verslunina að Reykjavíkurvegi 72 en slík verslun er einnig í hliðarými Nýju sjoppunnar.
Opið kl. 10-22 virka daga, 11-22 laugardaga og 12-22 á sunnudögum.
Það er Flottborg sem er rekstrarfélag Nýju sjoppunnar.