Hagtak hf. hefur sent inn fyrirspurn til skipulags- og byggingarráðs vegna áforma um hótelbyggingu á lóðinni Hvaleyrarbraut 30 en hún liggur á milli Hvaleyrarbrautar og Lónsbrautar og er hún skammt frá húsi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.
Ráðið tók jákvætt í tillögurnar og vísaði þeim til umsagnar hafnarstjórnar sem kynnti þær á fundi sínum í gær en tók ekki afstöðu til þeirra.
Hugmyndir að hótelbyggingu á lóðinni ná aftur til ársins 2017 þegar Hagtak sendi inn tillögu Ask arkitekta og var í framhaldinu gerð skipulagsbreyting á lóðunum nr. 20-32.
Tillögur Ask arkitekta gera ráð fyrir 5.410 m² húsi á fimm hæðum á lóðinni sem er 5.780 m². Snúa fimm hæðir að Lónsbraut en þrjár að Hvaleyrarbraut vegna landhalla. Er gert ráð fyrir samtals 84 hótelherbergjum, 28 einstaklingsherbergjum, 28 einstaklingsíbúðum og 28 tveggja menna hótelíbúðum.
Þá er gert ráð fyir 42 bílastæðum sem er 0,5 bílastæði á herbergi/íbúð og 84 reiðhjólastæðum, einu fyrir hvert herbergi/íbúð.
Þá er gert ráð fyrir 84 litlum geymslum, 1,5 – 2,5 m² sem bendir til þess að gert er ráð fyrir þeim möguleika að leigja herbergin/íbúðirnar út til lengri tíma. Þá er á hverri íbúðahæð gert ráð fyrir sameiginlegu eldhúsi og setustofu.
Á fyrstu hæðinni er gert ráð fyrir veitingasal, kaffihúsi, líkamsrækt, hjólageymslu og 120 m² golfbílageymslu en lóðin er skammt frá golfvelli Keilis á Hvaleyrinni.