Umhverfis- og framkvæmdaráð leggur til við bæjarráð að húsið Hörðuvellir 1 verði rifið og svæðið samnýtt með Hörðuvöllum til útivistar fyrir almenning
Í bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs frá í gær kemur fram að húsið við Hörðuvelli 1 sé víkjandi í deiliskipulagi.
Húsið sé ekki í góðu ástandi vegna fúa og raka og fyrirséð að eigi að nýta húsið áfram þurfi að fara í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir á húsinu.
„Húsið er staðsett við vinsælt útivistarsvæði miðsvæðis í Hafnarfirði og mætti huga að betri nýtingu svæðisins til útivistar. Umhverfis- og framkvæmdaráð leggur til við bæjarráð að húsið verði rifið og svæðið samnýtt með Hörðuvöllum til útivistar fyrir almenning.
Umhverfis- og framkvæmdaráð sér fyrir sér að þarna gæti komið t.d. grillaðstaða svipað og er á Víðistaðatúni ásamt salernisaðstöðu þar sem allar lagnir eru til staðar. Verði fallist á tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs er lagt til að svæðið verði hannað í heild sinni ásamt því að víðtækt samráð verði við nærumhverfið.“
Ýmis starfsemi hefur verið í húsinu undanfarið, þar hafði víkingafélagið Rimmugýgur aðsetur en áður hafði Lækur, þjónusta við fólk með geðraskanir, aðsetur. Annars var húsið íbúðarhús og var hús stöðvarstjóra Reykdalsvirkjunar.
Húsið er 165 m² og fasteignamat þess er 102 milljónir kr., þar af er lóðamatið 17,7 milljónir.
Húsið er byggt 1906 og í Fjallkonunni 22. nóvember 1906 mátti lesa:
„Sami framkvæmdamaðurinn [Jóhannes Reykdal] hefir nú komið upp nýrri rafmagnsstöð handa bænuTn, 300 föðmum fyrir ofan hann, við Hafnarfjarðarlæk.
Hún er i 10X12 álna húsi þar, tvílyftu. Í öðrum enda hússins er hlaðinn 16 feta hár grjótstöpull. Uppi á honum er rafmagnsvélin og hverfihjólið. Að þessum stöpli liggur 360 álna löng vatnsrenna, lokuð, úr læknum. Fallhæðin er 30 fet.
Á efra lofti hússins er ibúð umsjónarmanns. En niðri er húsið enn óbygt.“