Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins stóðu fyrir kvöldgöngu í Höfðaskógi fyrr í kvöld eins og félagin hafa gert undanfarin ár.
Göngurnar hafa þróast í að verða hrekkjavökugöngur og í ár var gengið alla leið.
Yfir 400 manns mættu í skóginn, börn og fullorðnir og þegar komið var í höfuðstöðvar Skógræktarfélagsins mátti sjá hvað var í vændum. Blá ljós, skuggalegar verur og skreytingar mátti sjá um allt og börnin virtust strax mjög spennt.
Gríðarlega hafði rignt fyrr í dag og fram á kvöldmat en þurrt var að mestu á meðan gengið var og norðurljós blöstu við göngufólki upp á milli trjánna. Gengnir voru tveir hringir í skóginum þar sem á vegi fólks urðu alls konar furðuverur sem sum létu illum látum og virtust allir skemmta sér vel þó sumum hafi brugðið þegar vera birtist skyndilega og öskraði.
Í fyrra mættu um 140 manns og kláraðist þá kakóið sem boðið var upp á. Nú átti það ekki að henda og fullir pottar voru af heitu súkkulaði og rjómi á sprautukönnum. Þó margir hafi farið beint heim eftir gönguna þá kláraðist það samt þegar aðeins fáir voru eftir í röðinni.
Að sögn Steinars Björgvinssonar, framkvæmdastjóra komu fjölmargir að undirbúningi dagsins, fólk víða að og náði það að gera gönguna eftirminnilega.
Ljósmyndari Fjarðarfrétta mundaði myndavélasímann og fangaði upplifunina.