fbpx
Mánudagur, desember 30, 2024
target="_blank"
HeimFréttirZontaklúbbur styrkti Kvennathvarfið

Zontaklúbbur styrkti Kvennathvarfið

Zontaklúbburinn Sunna hefur styrkt Kvennaathvarfið um 600 þúsund krónur til styrktar nýbyggingar Kvennaathvarfsins.

Styrkurinn var afhentur 11. september en styrkurinn er allur ágóði af fjáröflunargolfmóti klúbbsins sem haldið var 16. ágúst sl. í  Öndverðarnesi. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar lögðu fjáröfluninni lið.

Gert er ráð fyrir að nýtt athvarf verði tilbúið eftir hálft annað ár

Framkvæmdir við nýja athvarfið fóru af stað í vor og ganga vel. Gert er ráð fyrir að nýtt athvarf verði tilbúið eftir 18 mánuði. Kvennaathvarfið hefur í rúm 40 ár boðið uppá dvöl fyrir konur og börn þeirra, sem flýja þurfa heimili sín sökum ofbeldis. Konur dvelja í athvarfinu sér að kostnaðarlausu og þiggja þar frítt fæði, ráðgjöf og utanumhald. Í athvarfinu starfa ráðgjafar, sem fylgja konum vel eftir, húsmóðir, sem gætir þess að þar ríki fallegur heimilisbragur og góður heimilismatur sé í boði alla daga, barnaráðgjafi, sem hugar að vellíðan barna í húsi og veitir mæðrum ráðgjöf, og svo vaktkonur sem eru til taks allan sólarhringinn. Með aukinni ráðgjöf og ótakmörkuðum dvalartíma, hefur hlutfall þeirra kvenna sem snýr aftur í ofbeldissamband eftir dvöl, hríðfallið síðustu ár.

Alþjóðleg samtök kvenna

Zonta International eru alþjóðleg samtök kvenna. Eitt helsta markmið samtakanna  er að bæta stöðu kvenna og auka réttindi þeirra á sviði menntunar og heilbrigðis. Markmið Zontaklúbbsins Sunnu er að styrkja tengsl á milli kvenna í ólíkum starfsstéttum, um leið og þær afla fjár til að styrkja baráttu fyrir auknum réttindum, betri menntun, bættri heilsu og öryggi kvenna innanlands og utan.

Frá stofnun Zontaklúbbsins Sunnu árið 2003 hefur klúbburinn styrkt ýmis verkefni bæði hér heima og erlendis. Innanlands hefur Zontaklúbburinn Sunna m.a. styrkt Kvennaathvarfið, Skjólið athvarf fyrir heimilislausar konur, Stígamót, Menntunarsjóð mæðrastyrksnefndar, Miðstöð foreldra og barna,  Dyngjuna, Samtökin „Göngum saman“, Kvennaráðgjöfina, Samtök Endómetríósu á Íslandi, Anna valdefling erlendra kvenna og fleiri verkefni.

Á alþjóðavettvangi starfar Zonta með UN Women og sambærilegum samtökum og þá einkum í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. Meðal annarra verkefna er að styrkja ungar konur í Yemen og Madagascar til mennta og sérútbúnar töskur fyrir ljósmæður í Afghanistan. Í Rwanda hefur verið unnið við að koma í veg fyrir eyðnismit frá móður til barns. Einnig hafa samtök í Liberíu verið styrkt til að stofna læknastofur þar sem gerðar eru aðgerðir á konum sem hafa farið illa í fæðingu og undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að berjast  alþjóðlega gegn barnahjónaböndum.

Í Zontaklúbbnum Sunnu, sem upphaflega var stofnaður í Hafnarfirði, eru tæplega 30 konur af öllu höfuðborgarsvæðinu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2