Að vel hugsuðu máli og áskorun tveggja málsmetandi einstaklinga, sem hafa þó óskað nafnleyndar, hefur útvarps-, sjónvarps- og blaðamaðurinn og listmálarinn Halldór Árni Sveinsson ákveðið að gefa kost á sér við komandi bæjarstjórnarkosningar.
Halldór Árni Sveinsson hefur um áratugaskeið séð um útvarpssendingar og síðar netútsendingar frá bæjarstjórnarfundum og þekkir því eflaust betur til bæjarstjórnarmála en bæjarfulltrúarnir sjálfir sem í rauninni eru nýgræðingar í bæjarstjórn í samanburði við Halldór Árna.
Tilkynnti ákvörðun sína á Facebook síðu sinni eins og aðrir sem hingað til hafa tilkynnt framboð sitt.
Segir Halldór Árnir að þar sem enginn af þeim flokkum sem ætla að bjóða fram í Hafnarfirði hafi boðið sér öruggt sæti, eða sæti yfirhöfuð og sér hafi verið nauðugur einn kostur að stofna nýjan flokk, Gátlistann, sem hann hefur ákveðið að leiða. Verður hann því í 1. sæti framboðslistans, en fljótlega verður leitað að öðru fólki á listann til að uppfylla kröfur kjörstjórnar að sögn Halldórs Árna.
Framboðstilkynning Halldórs Árna hefur fengið mikil og góð viðbrögð og margir hafa óskað eftir að fá öruggt sæti á listanum.
Gunnar Svavarsson, þáverandi forseti bæjarstjórnar, kallaði Halldór Árna tólfta bæjarfulltrúann sem Halldór telur hafi verið visan til glöggskyggni sinnar á bæjarmálin.
„Ég hef þess vegna lengsta samfellda setu í bæjarstjórn allra sem þar hafa komið síðustu árin, alltaf náð kjöri, en það hafa ekki verið örlög allra frambjóðenda þeirra flokka sem slegist hafa um stólana. Og ég hef síðustu árin fengið sams konar hægindastól og hinir bæjarfulltrúarnir á fundum,” segir Halldór Árni.
Segist Halldór Árni vera fullur orku og treysti sér vel í að leiða framboðið til sigurs og að gegna starfi bæjarstjóra, sérstaklega eftir hádegi virka daga. „Ég… eða við höfum mótað skýra stefnu í skipulagsmálum, velferðarmálum, skólamálum og öllu því – en viljum fara með gát. Nálgun okkar er nýstárleg, við bjóðum upp á frumlegar lausnir, enda hugsum við öðruvísi en hin framboðin. En förum að öllu með gát og semjum pottþéttan gátlista, þar sem tíundað er í hvaða röð við munum gera þessar breytingar,” segir Halldór Árni.
Halldór Árni sendi eftirfarandi tilkynningu til Fjarðarfrétta:
Gátlistinn leysir mannekluna á leikskólum bæjarins
Mikill vandræðagangur hefur verið með mönnun á leikskólum bæjarins og vantar lærða leikskólakennara á flestar deildir. Þá er kvartað undan miklu álagi á starfsfólk. Gátlistinn ætlar að leysa þessi mál á eftirfarandi hátt;
Bæjarminjaverði verði falið að gera úttekt á fjárréttinni við Kaldársel, og leggja fram aðgerðaráætlun um viðgerðir og úrbætur ásamt kostnaðaráætlun, en viðgerðum verði lokið áður en sumarleyfum ljúki. Fjárréttin verði notuð sem útideild fyrir alla leikskóla bæjarins, sem sendi þangað í rútu á morgnana eina til tvær deildir hver skóli. Þar taki við börnunum lítill hópur eldri borgara á eftirlaunum, sem segi börnunum sögur og fari í leiki með þeim, og fræði þau um búskaparhætti, smölun og réttarferðir fyrr á öldum. Hver leikskóli eigi sitt hólf eða dilk og megi auðkenna það með myndum sem börnin hafa litað á leikskólanum, en eftir hádegi verði hliðin opnuð og börnin megi leika hvert við annað í frjálsum leik í drullunni í almenningnum. Með þessu móti kynnist þau meira á milli leikskóla. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að eldri borgararnir þiggi laun fyrir þessa samfélagsþjónustu (þar sem ellilífeyrir þeirra myndi skerðast sem laununum næmi), myndi þetta létta verulega á rekstri leikskólanna fjárhagslega og sér í lagi létta á mönnunarvandanum.
Þó verði að kanna bakgrunn þessara sjálfboðaliða, en það var starfsmönnum Skólaskrifstofunnar mikið áfall í fyrravetur þegar mjög roskin þýsk kona, Mathilde Zukkerberg, sem kom til starfa á einum leikskólanum í bænum á vegum þýsku atvinnumiðlunarinnar Brüder Grimm, var afhjúpuð sem konan í Sætindahúsinu í Svartaskógi. Það var ekki síst vegna árvekni ofurblaðamannsins, Hafnfirðingsins og FH-ingsins, Jakobs Bjarnars Grétarssonar, að upp komst, en hann rakst á vitnisburð roskinna systkina, Hanz og Grethe Bratwurst, gegn Mathilde, við Griswald réttarhöldin.
Í ljós kom að Mathilde hafði oft verið ein með hópi ungra barna, og í einni vettvangsferð, einmitt í Kaldárseli, týndust tvö börn, drengur og stúlka á sjötta ári, en fundust síðar um daginn á vergangi, í sykursjokki eftir að Mathilde hafði troðið upp í þau rúmu kílói af Toblerone súkkulaði og rommkúlum. Þess vegna verður bakgrunnur allra ófaglærðra starfsmanna leikskólanna kannaður, sérstaklega eldra fólks með góðlátlega framkomu.
Þetta er ein af mörgum hugmyndum Gátlistans í víðtækri aðgerðaráætlun um að koma rekstri bæjarins á réttan kjöl. Fljótlega birtum við hugmyndir okkar í skipulagsmálum.
Við þorum, á meðan aðrir eru bara að hugsa málin!
Gaman eða alvara?
Þeir sem þekkja Halldór Árna Sveinsson eru eflaust ekki í neinum vafa að tilkynning hans um framboð er góðlátlegt sprell enda er Halldór Árni alkunnur grínisti og eftirherma og hefur skrifað ófáa pistla í léttum dúr um fjölbreytt þjóðfélagsmál og að sjálfsögðu fylgir öllu gríni einhver alvara.
Halldór Árni hefur greinilega skemmt fjölmörgu fólki með uppátæki sínu og tugir manns hafa skrifað við upphaflegu færslu Halldórs Árna á Facebook.
Hvort skjálfti hafi orðið innan raða gömlu stjórnmálaflokkanna skal ekkert um sagt en ljóst að það færi ferskur blær um bæjarstjórnina ef Halldór Árni skipti um stól á bæjarstjórnarfundum og settist í stól bæjarfulltrúa, hvað þá ef hann settist í stól æðsta embættis í bæjarstjórn, stól forseta bæjarstjórnar. Hins vegar væri það eflaust heilladrýgra í rekstri bæjarins ef hann léti stól bæjarstjóra í hendur einhvers sem hefði menntun til að sinna slíku starfi, en hver veit?