Handknattleikskarl ársins 2019 er Hafnfirðingurinn Aron Pálmarsson, vinstri skytta og leikstjórnandi spænska meistaraliðsins Barcelona.
Tilkynnti HSÍ þetta fyrir stuttu. Þar var einnig kynnt að Handknattleikskona ársins sé Íris Björk Símonardóttir, markvörður Íslands- og bikarmeistara Vals.
Aron varð þrefaldur meistari á Spáni á síðasta keppnistímabili með Barcelona auk þess sem liðið komst í „final four“ úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í vor. Aron hefur blómstrað með liðinu á yfirstandandi leiktíð þar sem liðið ber höfuð og herðar yfir önnur í heimalandinu auk þess sem það hefur verið eitt það sigursælasta í Meistaradeild Evrópu fram til þess á keppnistímabilinu. Til viðbótar hefur Aron um árabil verið lykilmaður íslenska landsliðsins.
Aron er 29 ára gamall og fékk sitt handknattleiksuppeldi hjá FH. Hann lék upp yngri flokka félagsins og var í fyrsta sinn í meistaraflokki í mars 2006, þá tæplega 16 ára gamall. Þremur árum síðar gekk Aron til liðs við stórliðið THW Kiel í Þýskalandi og var á mála hjá liðinu í burðarhlutverki í sex ár. Eftir árin hjá Kiel gekk hann til liðs við ungverska meistaraliðið Veszprém. Árið 2017 gerðist Aron leikmaður Katalóníurisans Barcelona.
Aron hefur verið afar sigursæll á sínum ferli og unnið flesta þá titla sem lið hans hafa leikið um. Hann var valinn mikilvægasti leikmaður „final four“ úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu vorin 2014 og 2016 og var í sigurliði Meistaradeildar 2010 og 2012. Einnig hefur Aron leikið nokkrum sinnum til úrslita. Hann var í bronsliði Íslands á EM 2010 og er mörgum eflaust í fersku minni stórleikur Arons í sigurleik á Dönum á mótinu. Aron var kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna 2012.
Hinn 29. október 2008 lék Aron sinn fyrsta A-landsleik á móti Belgíu í Laugardalshöll. Hann hefur tekið þátt í öllum stórmótum landsliðsins frá og með EM 2010 ef frá er talið HM 2017 og á að baki 141 landsleik sem hann hefur skorað í 553 mörk.
Sem atvinnumaður í handknattleik í áratug hefur Aron verið einstök fyrirmynd ungra handknattleiksiðkenda, bæði hér á landi og erlendis.