Handknattleiksmaðurinn Ásbjörn Friðriksson og frjálsíþróttakonan Þórdís Eva Steinsdóttir voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona FH árið 2019 en valið fór fram í Sjónarhóli fyrr í dag.
Ásbjörn Friðriksson var valinn handknattleiksmaður FH á lokahófi handknattleiksdeildar í vor. Ásbjörn var einn allra besti leikmaður Olísdeildarinnar á síðasta tímabili og varð m.a. markakóngur deildarinnar með 151 mark. Ásbjörn var algjör lykilleikmaður í liði FH sem vann langþráðan bikarmeistaratitil í meistaraflokki karla eftir sigur á Val í úrslitaleik. Á yfirstandandi tímabili hefur Ásbjörn haldið áfram á sömu braut og verið einn allra besti leikmaður deildarinnar. Hann er sem stendur næst markahæstur í deildinni og var valinn í úrvalslið fyrri umferðar í Olísdeildinni.
Auk þess að vera frábær leikmaður hefur Ásbjörn verið mikill leiðtogi FH-liðsins innan sem utan vallar í mörg ár. Hann var lengi fyrirliði liðsins en hefur nú undanfarin tvö tímabil verið spilandi aðstoðarþjálfari FH.
Þórdís Eva Steinsdóttir keppti með íslenska landsliðinu í ár með frábærum árangri en m.a. sigraði hún á Evrópumóti Smáþjóða í 400 m hlaupi og í 4×400 m boðhlaupi. Á Norðurlandamóti U20 keppti Þórdís í 400 m hlaupi, 4×100 m boðhlaupi og 4×400 m boðhlaupi, hún varð í öðru sæti í 400 m hlaupi, þriðja sæti í 4×100 m og Norðurlandameistari U20 í 4×400 m á nýju Íslandsmeti 20 ára og yngri. Þórdís Eva varð önnur í 400 m hlaupi í Evrópubikar með landsliði Íslands þegar landslið Íslands fór upp um deild. Þórdís var meðal annars í 4×200 m boðhlaupssveit Íslands sem sló Íslandsmet í greininni innanhúss. Þórdís Eva var fjórða stigahæsta kona landsins í frjálsíþróttum á innanhússtímabilinu.
Þórdís Eva var fyrir skömmu kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar.