fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirBadmintonfélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistari félagsliða karla í borðtennis

Badmintonfélag Hafnarfjarðar Íslandsmeistari félagsliða karla í borðtennis

KR og Víkingur hafa einokað þennan borðtennistitil í 43 ár

A-lið BH varð Íslandsmeistari í 1. deild karla í borðtennis og Víkingur í 1. deild kvenna eftir úrslitaleiki í Raflandsdeildinni, sem fram fóru í Íþróttahúsinu við Strandgötu sl. laugardag.

Þetta var í fyrsta skipti sem BH verður Íslandsmeistari í 1. deild karla í borðtennis en Víkingskonur unnu síðast í 1. deild kvenna fyrir fimm árum síðan.

Í karlaleiknum mættust liðin, sem urðu í efstu tveimur sætunum í deildinni en sömu lið mættust í úrslitakeppninni í fyrra. Í fyrsta leik sigraði Magnús Gauti Úlfarsson, BH Magnús K. Magnússon, Víkingi 11-7 í oddalotu. Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi sigraði svo Birgir Ívarsson, BH í 2. leik 11-8 í oddalotu og staðan í leiknum því jöfn, 1-1.

Í tvíliðaleiknum léku Birgir og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson fyrir BH en Magnús Jóhann og Ingi Darvis Rodriguez fyrir Víking. BH vann nokkuð öruggan 3-0 sigur og staðan orðin 2-1 fyrir BH. Þá léku Magnús Gauti og Ingi og enn fór leikurinn í oddalotu. Þar sigraði Magnús Gauti 11-6 og tryggði BH Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti. Sigurlið BH var skipað Magnúsi Gauta Úlfarssyni, Birgi Ívarssyni og bræðrunum Pétri Marteini og Jóhannesi Bjarka Urbancic Tómassonum. Þjálfari þeirra er Tómas Shelton.

Ingimar Ingimarsson BH-ingur og formaður Borðtennissambandsins með sigurliðinu.

Magnús Gauti er uppalinn í BH og er ríkjandi Íslandsmeistari í einliðaleik. Varð hann fyrstur BH-inga til að vinna þann titil. Bræðurnir Pétur og Jóhannes léku áður með KR sem og Tómas þjálfari þeirra.

Um 70 manns æfa borðtennis hjá BH en félagið er með gríðarlega sterk unglingalið.

Víkingur sigraði í kvennaflokki

Nevena Tasic, Agnes Brynj­ars­dótt­ir, Þór­unn Ásta Árna­dóttiur og Stella Kar­en Kristjáns­dótt­ir.

Í úrslitaleik kvenna  vann Víkingur sigur á B-liði KR, 3-0, en það síðarnefnda komst óvænt í úrslitin með því að sigra A-lið KR. Var eftirtektarvert hversu ung liðin voru í úrslitunum en í sigurliði Víkinga var m.a. Agnes Brynjarsdóttir 12 ára sem hampaði Íslandsmeistaratitli í meistaraflokki fyrr í vetur.

Glæsileg umgjörð

Umgjörðin um úrslitaleikina var einstaklega glæsileg í íþróttahúsinu við Strandgötu.

Aðeins einn völlur var í miðjum salnum, vel upplýstur og á nýjum mottum BH. Leikirnir voru sýndir beint á vefnum þar sem þeim var lýst. Er slóðin á útsendingarnar á fésbókarsíðu BTÍ. Tveir landsdómarar voru á hverjum leik. Þá var áhorfendum boðið upp á veitingar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2