FH og Haukar mættust í Úrvalsdeild kvenna í fótbolta í Kaplakrika í kvöld. Þetta er annað skiptið sem liðin mætast í deildinni en FH vann fyrri leik liðanna í vor 0:3.
FH-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik en Haukar fengu frábært tækifæri til að komast yfir er Heiða Rakel komst ein í gegnum vörn FH en klikkaði skoti sínu beint í fang markmanns FH, Lindsey Harris.
Það tók einungis fimm mínútur fyrir FH að skora í seinni hálfleik. Guðný Árnadóttir skoraði úr aukaspyrnu tæplega 30 metrum frá marki. Markvörður Hauka, Tori Ornela var enn að stilla varnarvegginn og Guðný nýtir sér það og lætur bara vaða.
Fyrir leikinn var FH í 7. sæti með 12 stig en Haukar í neðsta sæti með eitt stig. FH er nú í 6. sæti með 15 stig með einn leik til góða.