Eftir sjö ára sigurgöngu HSK/Selfoss urðu FH-ingar Íslandsmeistarar félagsliða á Meistaramóti Íslands 11-14 ára innanhúss. Mótið var haldið í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika um helgina.
FH-ingar hlutu 643 stig og sigruðu í stigakeppninni í þremur aldursflokkum, 11 ára stúlkur, 13 ára stúlkur og 14 ára piltar og hlutu alls 17 gull, 12 silfur og 14 brons.
HSK/Selfoss varð í öðru sæti með 547,5 stig og ÍR-ingar í því þriðja með 411 stig.
Stelpurnar settu aldursflokkamet
Stúlknasveit FH í 13 ára flokki sló aldursflokkamet í 4×200 metra boðhlaupi og kom í mark á 1,54.82 mínútum.
Stúlkurnar úr FH voru sigursælar í 4×200 m boðhlaupinu en þær sigruðu í flokki 11, 12, 13 og 14 ára stúlkna.
Freyja Nótt Andradóttir úr FH setti mótsmet í 60 m hlaupi 11 ára stúlkna er hún hljóp á 8,60 sekúndum og náði sínum besta tíma. Freyja sigraði einnig í sínum aldursflokki í 600 m hlaupi.
Ísold Sævardóttir úr FH setti mótsmet í 600 m hlaupi 14 ára stúlkna er hún hljóp á 1,41.26 mínútum og náði sínum besta tíma. Ísold sigraði einnig í sínum aldursflokki í 60 m hlaupi og í langstökki.
Sölvi Snær Eyjólfsson úr FH sigraði í kúluvarpi 11 ára pilta og kastaði 7,36 m.
Birta Karen Andradóttir úr FH sigraði í 60 m hlaupi 13 ára stúlkna á 8,23 sekúndum og í langstökki er hún stökk 5.03 m.
Ásthildur Lilja Atladóttir úr FH sigraði í 60 m hlaupi 12 ára stúlkna á 8,99 sekúndum og í 600 m hlaupi á 1,53.96 mín.
Helen Silfá Snorradóttir úr FH sigraði í 600 m hlaupi 13 ára stúlkna á 1,48.93 mín.
Fjölmargir voru að ná sínum besta árangri á mótinu.