55. Bikarkeppni FRÍ var haldin 13. ágúst sl. og urðu FH-ingar þrefaldir bikarmeistarar.
FH sigraði karla-, kvenna- og heildarstigakeppnina og vann alls tólf greinar. Í heildarstigakeppninni hlutu FH-ingar 110 stig, ÍR-ingar urðu í öðru sæti með 90 stig og Breiðablik í því þriðja með 75 stig.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) setti mótsmet í sleggjukasti kvenna er hún kastaði 60,94 metra.
Setti aldursflokkamet
Sama dag fór einnig fram Bikarkeppni 15 ára og yngri en þar sigruðu Skarphéðinsfélagar sem urðu þrefaldir bikarmeistarar. Þau hlutu alls 81,5 stig og unnu samtals ellefu greinar. Í öðru sæti var lið ÍR með 72 stig og FH í því þriðja með 66,5 stig.
Freyja Nótt Andradóttir, FH setti aldursflokkamet í 100 metra hlaupi í 12 ára flokki og kom hún í mark á 12,66 sek.