Tveir öflugir hlaupahópar þar sem fólk á öllum getustigum nýtur þess að hlaupa
Skokkhópur Hauka og Hlaupahópur FH eru tveir af öflugustu hlaupahópum landsins. Skokkhópur Hauka var stofnaður í september 2007 og varð strax fjölmennur. Hlaupahópur FH var svo stofnaður í febrúar 2010 og varð strax einnig mjög fjölmennur.
Innan beggja hópanna eru afrekshlauparar í bland við áhugafólk um hlaup og skokk og þar er fólk á öllum aldri þó meðalaldurinn sé sennilega nálægt 40 árum.
Gott samstarf hefur verið á milli hópanna enda rekast hlauparar í hópunum oft á hvern annan á hlaupum, á hjóli eða á gönguskíðum en almennt hefur fólk í hópunum mikinn áhuga á útivist og hreyfingu.
Í síðustu viku hittust hóparnir á sameiginlegri hlaupaæfingu í boði Hauka sem voru að endurgjalda boð FH fyrir stuttu. Bláir FH-ingarnir og rauðir Haukarnir mættu á blá/rauðum íþróttavelli við Skarðshlíðarskóla og hlupu þaðan mislangar vegalengdir á stígum upplands Hafnarfjarðar.
Tilefni var til söngs í upphafi æfingar en tilefnið var 82 ára afmælis Hauka hlauparans Eysteins Hafbergs sem er glæsileg fyrirmynd yngri hlaupara. Sunginn var afmælissöngurinn og afmælinu fagnað vel.
Þegar komið var til baka buðu Haukar upp á íspinna enda veðrið afskaplega gott.