Hafnfirska sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir er mætt í Ólympíuþorpið í Ríó og er þar með fyrsti íslenski keppandinn sem mætir á svæðið. Næstu keppendur sem bætast í hópinn eru fimleikakonan Irina Sazonova og hafnfirski sundmaðurinn Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn (22) er að keppa á sínum öðrum Ólympíuleikum en í London 2012 keppti hann í 400 m fjórsundi og 1.500 m skriðsundi.
Síðan þá hefur Anton Sveinn einbeitt sér að bringusundinu og tryggði hann sér þátttökurétt í Ríó í 100 og 200 m bringusundi. Anton keppir í undanrásum í 100 m bringusundi á laugardaginn og verða milliriðlar aðfararnótt sunnudags og úrslitin aðfararnótt mánudags. Anton keppir í undanrásum í 200 m bringusundi á þriðjudaginn 9. ágúst en milliriðlar verða aðfararnótt miðvikudags 10. ágúst og úrslit aðfararnótt fimmtudags.
Anton hefur æft í Alabama í Bandaríkjunum þar sem hann var í vetur á þriðja ári í BS námi í upplýsingafræði.
https://www.rio2016.com/en/athlete/anton-mckee
Hrafnhildur á afmæli í dag
Hrafnhildur á afmæli í dag og fagnar því 25 ára afmæli sínum á fyrsta degi í Ólympíuþorpinu. Hún er líka að keppa á sínum öðrum Ólympíuleikum en í London 2012 keppti hún í 200 metra bringusundi og var í boðsundssveitinni í 4x 100 m fjórsundi. Upphaflega átti hún einnig að keppa í 100 metra bringusundi en þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla.
Í Ríó keppir Hrafnhildur í 100 og 200 m bringusundi en lágmörkunum náði hún á Smáþjóðaleikunum á síðasta ári. Hrafnhildur keppir í undanrásum í 100 m bringusundi á sunnudaginn en milliriðlar eru aðfararnótt mánudags og úrslit aðfararnótt þriðjudags. Hún keppir í 200 m bringusundi í undanrásum miðvikudaginn 10. ágúst en milliriðlar eru aðfararnótt fimmtudags og úrslit aðfararnótt föstudags.
Hrafnhildur hefur æft í Florida þar sem hún lauk gráðu í almannatengslum í University of Florida í vor.
https://www.rio2016.com/en/athlete/hrafnhildur-luthersdottir