FH og Haukar mættust öðru sinni í Íslandsmótinu í handknattleik karla í Kaplakrika á mánudaginn.
Liðin mættust síðast 19. september á Ásvöllum en þá lauk leiknum með jafntefli, 29-29 en leikir liðanna hafa yfirleitt verið hin besta skemmtun og það upplifðu þeir 1.640 áhorfendur í Kaplakrika að þessu sinni.
Varnir liðanna voru sterkar að þessu sinni en FH var öllu sterkari í fyrri hálfleik og náði mest 4 marka forystu. Haukar börðust vel undir lok hálfleiksins og minnkuðu muninn í tvö mörk, 16-14.
Haukarnir komu kröftugir inn í seinni hálfleikinn og náðu fljótt að jafna og komast yfir. FH-ingar voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og komust aftur yfir og lokamínúturnar voru æsispennandi en FH-ingar komust í 25-24 þegar rúmar 10 sekúndur voru til leiksloka. Haukar fengu svo aukakast þegar 2 sekúndur voru eftir og úr því skoraði Adam Haukur Baumruk við mikinn fögnuð Haukaáhangenda sem voru margir og áberandi á leiknum.
Ásbjörn bestur
Besti leikmaðurinn í fyrri hluta úrvalsdeildar karla var Ásbjörn Friðriksson í FH en hann hefur verið gríðarlega öflugur í vetur. Ásbjörn var einnig kosinn besti leikstjórnandinn.
Þjálfari FH, Halldór Jóhann Sigfússon, var svo kjörinn besti þjálfarinn.
Þá var Heimir Óli Heimisson, Haukum valinn besti línumaður fyrri hluta mótsins.