Kirkjuhlaup Skokkhóps Hauka var haldið í dag. Er þetta árlegt hlaup þar sem hlaupurum víðs vegar að er boðið í samskokk á milli allra helstu kirkna bæjarins auk þess sem komið var við í Garðakirkju.

Hópurinn hittist í Ástjarnarkirkju þar sem jólasöngvar voru sungnir og hlustað á hugvekju sr. Bolla Péturs Bollasonar en sr. Arnór Bjarki Blomsterberg þjónaði fyrir altari. Var þetta hátíðleg stund og kirkjan troðfull.

Þaðan var hlaupið saman að kapellunni í Hafnarfjarðarkirkjugarði, þar sem hópmynd var tekin og þaðan var hlaupið að Jósepskirkju og klaustrinu en hefð er fyrir því að snerta kirkjuhurðina á hverri kirkju. Þaðan var hlaupið að Fríkirkjunni og síðan að Víðistaðakirkju og þeir sem lengst fóru hlupu að Garðakirkju en á bakaleiðinni var komið að Hafnarfjarðarkirkju áður en leiðin lá aftur til baka að Ástjarnarkirkju þar sem veglegt kaffihlaðborð beið gesta og heitt súkkulaði. Eru það félagar í Skokkhópi Hauka sem koma með veitingarnar.
Veðrið var milt og fallegt og hlauparar í jólaskapi en áætlað er að um 220 hafa tekið þátt að þessu sinni.






