FH-ingar urðu Íslandsmeistarar félagsliða á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss sem fram fór um helgina.
Vann FH stigakeppni kvenna, karla og samanlagt og hlaut 64 stig samanlagt en ÍR kom næst með 30 stig og HSK/Selfoss í þriðja sæti með 19 stig. Fengu FH-ingar 12 gullverðlaun, 11 silfurverðlaun og 6 bronsverðlaun.
Eitt Íslandsmet og þrjú mótsmet voru sett, öll sett af FH-ingum.
Stigahæstu afrekin
Irma Gunnarsdóttir náði besta afreki kvenna sem hún fékk 1.067 stig fyrir og Kolbeinn Höður Gunnarsson vann besta afrek karla og fékk 1.043 stig fyrir.
Íslandssmet Daníels Inga

Hápunktur mótsins Íslandsmet Daníels Inga Egilssonar úr FH í þrístökki er hann stökk 15,49 m og bætti 12 ára gamalt met Kristins Torfasonar um heila 22 cm. Daníel Ingi varð einnig Íslandsmeistari í langstökki með 7,23 m stökki en hann hefur í ár stokkið lengst 7,35 metra sem er hans besti árangur.
Irma Gunnarsdóttir úr FH var hársbreidd frá Íslandsmetinu sínu í þrístökki kvenna þegar hún sigraði á nýju mótsmeti. Stökkið reyndist 13,34 m en metið hennar í greininni er 13,36 m.

Irma sigraði einnig í langstökki kvenna með 6,27 metra stökki. Stökkið var stigahæsta afrek mótsins samkvæmt stigatöflu World Athletics.
Þá sigraði Irma í kúluvarpi er hún kastaði kúlunnu 12,4 m.
Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH setti mótsmet í 60 metra hlaupi karla og kom hann í mark á 6,80 sek sem er stigahæsta afrek karla á mótinu.

Kolbeinn sigraði einnig í 200 metra hlaupi á 21,79 sekúndum.
Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) sem er aðeins 17 ára sigraði óvænt í 1.500 m hlaupi á 4,46.80 mín. og varð þriðja í 3.000 m hlaupi og bætti sig í báðum greinum.

Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir (FH) sigraði í 800 m hlaupi á 2,14.46 mín.
Íris Dóra Snorradóttir (FH) sigraði í 3.000 m hlaupi á 10,14.65 mín. og varð önnur í 1.500 m hlaupi og aðeins um hálfa sekúndu frá sínu besta í báðum hlaupum.

Elías Óli Hilmarsson (FH) sigraði í hástökki er hann stökk 187 cm en hann hefur stokkið hæst 207 cm en hann er 19 ára.
Sara Kristín Lýðsdóttir sigraði í stangarstökki er hún stökk 2,72 m sem er hennar besti árangur en hún er aðeins 17 ára.
Ljósmyndir: FRÍ, Gunnlaugur Júlíusson.