HSK Box Cup er mót sem haldið er í Hillerød í Danmörku en það hefur verið haldið árlega síðan 1985. Keppendur voru yfir 400 frá um 10 löndum. Stór hópur frá Íslandi tók þátt núna 14.-16. október sl.
Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar sendi þá Hafþór Magnússon landsliðsmann og Alejandro Cordova.
Þeir enduðu báðir á palli, Hafþór með gull og Alejandro með silfur. Hafþór sigraði annað árið í röð en hann sigraði í fyrra á sínu fyrsta ári sem ólympískur hnefaleikamaður.
Nú mætti Hafþór eftir að hafa unnið silfur á Norðurlandameistaramótinu sem haldið var fyrr á þessu ári hér á landi. Hann stöðvaði andstæðing sinn í þriðju lotu eftir örugga sókn í mjög tæknilegri viðureign. Það var engin spurning að Hafnfirðingurinn væri búinn að tryggja sér sigur því Hafþór sýndi mikla yfirburði bæði í tækni og styrk eftir fyrstu mínútu viðureignarinnar.
Í úrslitabardaganum munaði litlu að hann myndi stöðva andstæðing sinn í þriðju lotu líkt og í bardaganum deginum áður en svo var ekki og börðust þeir til síðustu mínútu og var sigurinn Hafþórs megin með einróma dómaraúrskurði. Hafþór hreppti þar með gull annað árið í röð, miklar framfarir hjá þessa sterka hnefaleikakappa á svo stuttum tíma. Hann berst svo aftur í nóvember gegn sterkum Norðmanni á Icebox-mótinu í Kaplakrika. Síðan keppir hann á bikarmeistaramóti HNÍ þar sem tvö mót eru eftir af mótaröðinni.
Hafþór hefur átt rosalega gott keppnisár hingað til og stendur nú fremstur meðal jafningja í hnefaleikum á Íslandi.
Alejandro Cordova keppti í fyrsta sinn á mótinu og sömuleiðis í fyrsta sinn erlendis og það í sínum þriðja bardaga en hann keppti fyrst í ólympískum hnefaleikum í mars á þessu ári. Þar hóf hann þátttöku sína á bikarmeistaramóti Hnefaleikasambands Íslands og hefur tekið þátt í tveimur bardögum þar aðeins 14 ára að aldri.