fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirLeitað til eftirlistnefndar með fjármálum íþróttafélaga

Leitað til eftirlistnefndar með fjármálum íþróttafélaga

Íþrótta- og tómstundanefnd sýnir lántöku frá barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar FH áhuga

Íþrótta- og tómstundanefnd bókaði á fundi sínum fyrr í dag að nefndin óski eftir upplýsingum frá eftirlitsnefnd um fjármál íþrótta- og æskulýðsfélaga um hvort hún hyggist taka fyrir lán frá barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fimleikafélags Hafnarfjarðar til meistaraflokks sömu deildar.

Eftirlitsnefndin var sett á laggirnar að frumkvæði bæjaryfirvalda fyrir allmörgum árum en skv. vef bæjarins kom nefndin síðast saman 21. nóvember 2018 en það ár kom hún sjö sinnum saman. Engar reglur eða samþykktir um nefndina er að finna á vef bæjarins.

Tóku milljónalán úr barnastarfinu

Stjórn Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar FH sagði sig nýlega frá störfum fyrir deildina. Er ástæðan sögð, í tilkynningu til foreldra, skoðana­ágreiningur við formann og fram­kvæmdastjórn knattspyrnudeildar og formann FH, trúnaðarbrestur og óásættanleg vinnubrögð þeirra síðustu vikur.

Um 860 börn og unglingar æfðu knattspyrnu á síðasta ári hjá FH og hafa foreldrar þurft að keyra með börnin í önnur sveitarfélög til æfinga þegar ekki hefur tekist að fá æfingatíma í Risanum eða Dvergnum í Kaplakrika. Undan­farin ár hafa foreldrar þurft að greiða sérstakt gjald sem er leiga fyrir afnot af minnsta knatthúsinu, Dvergn­um og hefur verið mikil óánægja með það meðal foreldra.

Deilurnar nú snúast um gjörning sem gerður var gegn vilja stjórnar Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildarinnar. Var sá gjörningur lán sem tekið var frá Barna- og unglingaráði til knattspyrnu­deildar FH en viðmælandi Fjarðarfrétta segist hafa staðfestingu á því að lánið hafi verið m.a. notað til að greiða launaskuldir leikmanna meistaraflokks karla.

Í samtali við Elías H. Melsteð, sem nú lætur af störfum sem formaður Barna- og unglingaráðs, staðfestir hann að deilurnar snúist um lánveitingu milli deilda og aðalstjórnar en vildi hann ekki gefa upp hversu hátt lánið væri en vonaðist eftir að viðræður skiluðu árangri og staðfestingu á því að lánið yrði greitt til baka sem allra fyrst.

Valdimar Svavarsson sagði í samtali við Fjarðarfréttir að þeir hefðu helst viljað sleppa við að taka þetta lán en lausafjárstaðan væri erfið nú, m.a. vegna tafa á samningum við Hafnar­fjarðarbæ. Þó fjárhagur sé aðskilinn hafi reksturinn verið sveiflukenndur og fé hafi þá verið fært á milli í hina áttina líka. Lagði han áherslu á að þessi lántaka ætti ekki að hafa áhrif á starf barna og unglinga enda verði stefnt að því að greiða lánið hratt niður. Sagði hann enga launung á að í aðdraganda jóla hafi verið talið mikilvægt að gera upp laun leikmanna, þjálfara og starfsmanna deildarinnar.

Staðfesti Valdimar að lánið næmi 5 milljónum kr. og að skuldabréf hafi verið gefið út fyrir láninu með endur­greiðslu í maí.

Stjórn Barna- og unglingaráðs kom ekki að undirritun bréfsins en skv. lögum FH skal fjárhagur unglingaráða vera aðskilinn frá fjármálum meistara­flokka.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2