Þann 7. apríl verður haldin þríþraut sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi svo vitað sé en hún hefst með 10 km keppni á gönguskíðum í Bláfjöllum, síðan hjóla þátttakendur um 22 km frá Bláfjallaafleggjaranum og hjóla í átt til Hafnarfjarðar og að Hamranesnámunni við Hvaleyrarvatnsveg og hlaupa svo um 5 km í kringum Ástjörnina og lýkur keppninni við Ásvallalaug.
Keppnin ætti ekki að vera of erfið því hæðarmunur á leiðinni frá Bláfjöllum og niður í Ásvallalaug eru um 400 metrar. Þríþrautarkappar ættu að finna sig í þessari þríþraut, sérstaklega þeir sem hafa náð einhverri tækni í skíðagöngunni.
Verður afar skemmtileg keppni
Segist Einar Ólafsson, einn af forsvarsmönnum keppninnar hafa trú á því að þetta verði ansi skemmtileg keppni þar sem fjölhæfni á milli íþrótta muni hafa afgerandi áhrif á hver muni bera sigur úr bítum. „Ef þú nærð forskoti á skíðunum verður kannski erfitt að vinna það upp fyrir þá sem á eftir koma, en það er það skemmtilega við þetta að þú veist ekki hvernig keppnin endar fyrr en fyrsti kemur í mark,” segir Einar.
„Hugmyndin er að setja saman skemmtilega keppni þar sem koma saman vetrar- og sumaríþróttir og mæta þannig aukinni eftirspurn eftir óhefðbundinni keppni. Bæði sundfólk, hlauparar og hjólreiðafólk taka þátt í hefðbundinni þríþraut sem er sund, hjól og hlaup. Nú eru mörg hundruð manns að taka þátt í Landvættinum sem er fjórar einstakar greinar; skíðaganga, hjól, hlaup og sund. Þeir sem klára þrautina á einu ári fá nafnbótina Landvættur.“ Telur Einar þetta mjög skemmtilega fjórþraut sem hafi aukið veg skíðagöngunnar mörg hundruð prósent síðustu 4 til 5 árin.
Áhugi á gönguskíðaíþróttinni hefur margfaldast undanfarið
Nú er svo komið að það er fullt á öll gönguskíðanámskeið út um allt land. „Maður hefur heyrt ótrúlega sögur t.d. um að fyrir austan þá þurfir þú nánast að taka miða til að komast að í skíðagöngubrautinni á Egilsstöðum. Svo eru nýjir staðir að dúkka upp eins og á Ársskógsströnd, Vopnafirði og víðar. Hér á höfuðborgarsvæðinu erum við að kenna fleiri hundruð manns á hverjum vetri,“ segir Einar sem er hæst ánægður með þennan aukna gönguskíðaáhuga enda mikill gönguskíðakappi sjálfur.
Með honum að þessari keppni standa meðal annar tveir hafnfirskir gönguskíðakappar, þeir Sveinbjörn Sigurðsson og Egill Guðmundsson.
Til styrktar Snorra Einarssyni til keppni
Þríþrautin er til styrktar Snorra Einarssyni besta skíðagöngumanni Íslands fyrr og síðar. Hann keppir í heimsbikarnum og kostar það mikið fé sem hann hefur enga möguleika á að afla sér sjálfur jafnvel þó Skíðasamband íslands standi þétt við bakið á honum þá næst ekki að dekka allan hans kostnað. Snorri var einungis 18 sekúndur frá því að lenda í 3:ja sæti á heimsmeistaramótinu í 50 km í Seefeld í Austurríki í vetur. Árangur sem er alveg hreint ótrúlegur í þessari erfiðustu íþrótt í heimi. Hann hefur skipað sér sess á meðal þeirra 30 bestu með nokkrum göngum í vetur. Ég leyfi mér að fullyrða að Snorri sé einn af okkar topp fimm íþróttamönnum sem við eigum. Allur ágóði af þríþrautinni rennur óskipt til hans.
Skráning og nánari upplýsingar
Keppnin hefst sunnudaginn 7. apríl kl. 10:00 við Ullarskálann í Bláfjöllum.
Mótshaldarar ferja skíði, stafi og skó keppenda frá Bláfjöllum og að Ásvallalaug en keppendur koma hjólum sínum, hjólaskóm og hjálmi fyrir í hjólagrind við Bláfjallavegsafleggjarann til Hafnarfjarðar, eftir hjólalegginn eru hjólin svo flutt í Ásvallalaug í sendibíl, en alls staðar verða vaktmenn sem gæta búnaðarins.
Kl. 13:30 verður verðlaunaafhending við Ásvallalaug.
Skráning er á netskraning.is. Keppnisgjald er 10.000 kr.