Sól Kristínardóttir Mixa, BH, er Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis, en Íslandsmótið var haldið í Íþróttahúsinu Digranesi um liðna helgi.
Þetta var fyrsti titill Sólar í einliðaleik.
Sól varð tvöfaldur meistari en hún varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Aldísi Rún Lárusdóttur, KR og þetta fyrsti titillinn í tvíliðaleik sem þær vinna saman. Sól er fyrsta konan úr BH til að verða Íslandsmeistari í einliðaleik í meistaraflokki.
Ingi Darvis Rodriguez varð Íslandsmeistari í karlaflokki en hann sigraði líka í tvíliðaleik með Magnúsi Jóhanni Hjartarsyni, Víkingi, og tvenndarleik með Evu Jósteinsdóttur, Víkingi.
Magnús Gauti Úlfarsson úr BH varð í öðru sæti eftir gríðarlega spennandi leik.
Þá sigraði Pétur Marteinn Tómasson, úr BH í 1. flokki karla.
Sjö manna fjölskylda úr Vesturbænum í Reykjavík sýndi hvað borðtennis er góð fjölskylduíþrótt en þau Guðrún Gestsdóttir og Gunnar Skúlason og börn þeirra fimm, Pétur, Skúli, Gestur, Eiríkur Logi og Guðbjörg Vala kepptu öll á mótinu. Þau fóru heim með fern verðlaun, þar á meðal ein gullverðlaun.
Skráðir keppendur á mótinu voru 99, og komu þeir úr félögunum BH, BM, Garpi, HK, ÍFR, KR og Víkingi.