Nú hafa 270 keppendur úr 14 sundfélögum lokið móti á Extramótinu sem haldið var nú í dag og í gær (laugardag og sunnudag) í Ásvallalaug. Mótið var æsispennandi og náðu þó nokkrir lágmörkum fyrir stærri mót framundan. Þetta var jafnframt seinasta mót fyrir Íslandsmeistaramótið í sundi sem verður haldið eftir tæpar þrjár vikur.
Sundfélag Hafnarfjarðar fékk flesta verðlaunapeninga á mótinu 35 gull- 22 silfur – 28 brons. Á eftir kom Sunddeild Breiðabliks með 23 gull – 22 silfur – 19 brons og á eftir því kom Íþróttabandalag Reykjanesbæjar með 23 gull – 22 silfur – 19 brons.
Mótsmet
Níu mótsmet voru slegin og það voru þau Hrafnhildur Lúthersdóttir, Aron Örn Stefánsson, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH og Kristinn Þórarinsson úr Ægi sem slógu þau.
Besti árangur
Aron Örn Stefánsson náði besta árangri í karlaflokki samkvæmt stigatöflu með 727 stig sem hann náði í 100 metra skriðsundi. Hrafnhildur Lúthersdóttir náði besta árangri í kvennaflokki með 825 stig sem hún náði í 50 metra bringusundi.
Patrik Viggó Vilbergsson úr Sunddeild Breiðabliks og Daði Björnsson úr SH fengu flest gullverðlaun eða 6 gull hver.
Lágmörk
Nokkrir reyndu við að ná EM lágmarki en Hrafnhildur Lúthersdóttir var sú eina sem náði lágmarki. Hún náði lágmörkum í fjórum greinum í 100 metra fjórsundi, 50 metra bringusundi, 100 metra bringusundi og 200 metra bringusundi.
Það voru 11 sundmenn sem náðu lágmörkum fyrir Norðurlandamótið sem haldið verður í Laugardalslaug dagana 1.-3. desember.
- Kristinn Þórarinsson í 50 og 100m baksundi og 200m fjórsundi
- Aron Örn Stefánsson í 50, 100 og 200m skriðsundi
- Kolbeinn Hrafnkelsson í 50 og 100m baksundi
- Davíð Hildiberg Aðalsteinsson í 50 og 100m baksundi
- Predrag Milos í 50m baksundi, 50 og 100m skriðsundi
- Brynjólfur Óli Karlsson í 50, 100 og 200m baksundi
- Jóhanna Elín Guðmundsdóttir í 100m skriðsundi
- Katarína Róbertsdóttir í 50m baksundi
- Bryndís Bolladóttir í 400m skriðsundi
- Patrick Viggo Vilbergsson í 400m skriðsundi
- Ingibjörg Kristín Jónsdóttir í 100m baksundi og 50m flugsundi
Úrslit
Úrslitin er hægt að finna hér með því að smella á “results” við viðeigandi greinar. Einnig er hægt að hlaða niður pdf skjali með öllum úrslitunum hér.
SH þakkaði öllum aðstandendum mótsins vel að móti loknu