fbpx
Fimmtudagur, desember 26, 2024
target="_blank"
HeimKynningFélagshesthús, knapamerki og reiðmennskuæfingar

Félagshesthús, knapamerki og reiðmennskuæfingar

Hauststarf Hestamannafélagsins Sörla er hafið af krafti

Hauststarf Hestamannafélagsins Sörla er byrjað og fer það af stað af miklum krafti.

Eftirfarandi er kynning frá Hestamannfélaginu Sörla:

Félagshesthús Sörla

Hið vinsæla félagshús Sörla er komið í gang.  Þar er alltaf líf og fjör. Þangað koma m.a. krakkar sem eiga ekki foreldra eða aðra aðstandendur í hestamennsku og stíga sín fyrstu skref. Í vetur er Sörli í samstarfi við Íshesta og leigir glæsilega aðstöðu hjá þeim undir starfsemina og hefur aðgang að þeirra hestakosti. Það er mikið gleðiefni þegar við sjáum að krakkarnir, sem hafa verið í félagshúsinu s.l. ár, hafa sum nú eignast sína eigin hesta en koma aftur í félagshúsið og leigja pláss, til að geta verið áfram saman. Auður Ásbjörnsdóttir, umjónarmaður félagshússins er þeim til halds og trausts en hún hefur undanfarin ár sinnt þessu starfi af mikilli kostgæfni ásamt Guðbjörgu Önnu Guðbjörnsdóttur. Það er frábært að sjá að nokkrir unglingar sem byrjuðu í félagshúsinu eru nú orðin sjálfstæð í sinni hestamennsku í hesthúsum í hverfinu okkar. Áhugasamir geta sent tölvupóst á felagshus@sorli.is fyrir frekari upplýsingar.

Yfirþjálfari

Í vor réð stjórn félagsins Hinrik Þór Sigurðsson, reiðkennara sem yfirþjálfara hjá félaginu. Ástæðan er margvísleg. Stefna núverandi stjórnar er sú að starfa í samræmi við margra ára gamalt slagorð félagsins „Sörli – Íþrótt – Lífstíll“ sem og að vera í takti við markmið stjórnar þ.e.a.s. að vera fagleg varðandi nýliðun og barna- og ungmennastarf.

Reiðmennskuæfingar

Veturinn 2019-20 var byrjað með þá nýjung í Sörla að bjóða upp á það sem við höfum kallað „Reiðmennskuæfingar“. Reiðmennskuæfingarnar eru bóklegar og verklegar æfingar fyrir börn og ungmenni á aldrinum 8-21 árs sem verða 2x í viku. Reiðmennskuæfingar eru hugsaðar út frá því sjónarhorni að um sé að ræða reglubundnar íþróttaæfingar eins og í öðrum íþróttagreinum, með öllu sem því tilheyrir. Reiðmennskuæfingarnar eru byrjaðar hjá börnum og unglingum félagsins. Sömuleiðis er stefnt á að hefja reiðmennskuæfingar fyrir fullorðna nú á haustdögum en um er að ræða svipað fyrirkomulag og fyrir börn og ungmenni. Reiðkennarar á Sörlasvæðinu koma til með að skipta kennslunni á milli sín.

Námskeið og knapamerki

Ástríður Magnúsdóttir, reiðkennari mun sjá um kennslu í knapamerkjum í vetur. En knapamerkin eru ávallt vinsælt nám í vel uppbyggðri þjálfun manns og hests.  Fræðslunefnd félagsins heldur áfram að huga að fjölda annarra námskeiða fyrir hinn almenna reiðmann. Fjöldi námskeiða eru í pípunum, sýnikennsla og fræðslukvöld fyrirhuguð sem auglýst verða síðar á vef félagsins.

Starf hestamannafélagsins, æfingar og kennsla fer að mestu fram í núverandi reiðhöll félagsins. Það er mikið fagnaðarefni að nú mun brátt hefjast nýr kafli í sögu félagsins og hestamennsku í Hafnarfirði þegar bygging nýrrar reiðhallar hefst. Þá mun starf með börnum og ungmennum stóraukast með bættri aðstöðu. Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér þá starfsemi og það íþróttastarf sem fer fram á vegum Hestamannafélagsins Sörla. Uppland Hafnarfjarðar er frábært útivistarsvæði þar sem allir geta notið sín í sátt og samlyndi þar er „heimavöllur“ Sörla.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðileg jól

Jólahugvekja

Vísindi notuð í varnarskyni

H2