fbpx
Mánudagur, janúar 20, 2025
HeimKynningHamborgarabúllan verður hafnfirsk

Hamborgarabúllan verður hafnfirsk

Opnaði nýjan stað á Selhellu í júní og flytur yfir götuna á Reykjavíkurvegi í haust

Stefán Þór Pétursson rektstrarstjóri og starfs­lið hans á nýju Hamborgarabúllunni við Selhellu stóð sveitt við eldamennskuna í hádeginu á þriðjudag enda staðurinn troðfullur þrátt fyrir að allar leiðir hafi verið lokaðar að staðnum vegna mal­bikunarframkvæmda. Reyndar hafði fleiri götum verið lokað en nauðsyn krafði og Stefán hafði sent einn starfsmann heim þar sem ekki var búist við mörgum vegna lokunarinnar. En svo fór alls ekki.

Þriðjudagstilboðið var vinsælt enda á frábæru verði en svangir viðskiptavinir völdu að sjálfsögðu ekki allir eins. Stöðugur straumur var inn og þegar framkvæmdastjórinn mætti á staðinn var hann gripinn í eldhúsið, svo mikið var að gera.

Frá nýju Búllunni við Selhellu.

Eftir að róaðist sagði hafnfirski framkvæmdastjóri Hamborgara­búllunnar, Sigurður Bjarna­son, að staðurinn hafi fengið gríðarlega góðar viðtökur frá því hann var opnaður 1. júní sl. Staðurinn tekur 50 manns í sæti og er nýjasta Búllan, en alls eru staðirnir á Íslandi níu auk Trukksins sem er hamborgarastaður á hjólum og er nú fyrir aftan Bæjarbíó. Þá eru staðir undir merkjum Tommi‘s Burger joint m.a. í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi.

Hafnfirsk Búlla

Hamborgarabúllan leggur áherslu á að nota aðeins úrvals hráefni og fær nú allt sitt kjöt frá hafnfirska Kjöt­kompaníinu.

Þá stefnir fyrirtækið á að flytja skrif­stofur sínar úr Kringlunni í Hafnarfjörð í haust.

Flytja yfir götuna

Hamborgarabúllan opnaði á Reykjavíkurvegi 62 árið 2005 og hefur verið þar síðan. Staðurinn mun hins vegar flytjast yfir Hjallahraunið í nýuppgert húsnæði að Reykjavíkurvegi 64, þar sem prjónabúð var síðast. Segir Sigurður að þangað verði reynt að flytja stemminguna af gamla staðnum er staðurinn verður stækkaður og mun taka 50 manns í sæti.

Búllan flytur í þetta húsnæði að Reykjavíkurvegi 64.

Þá munu skrifstofur fyrirtækisins flytja í sama húsnæði og sagðist Sigurður hlakka til að þurfa ekki að aka til Reykjavíkur á hverjum degi í vinnu.

Hvernig smakkaðist borgarinn?

Jú, vel, takk fyrir en blaðamaður prófaði að sjálfsögðu hamborgara sem var á þriðjudagstilboðinu. Stóð hann alveg undir væntingum, ferskur, einfaldur og kartöflurnar góðar. Ekki spillir að hægt er að bæta á af sósubarnum þar sem líka má næla sér í súrar gúrkur og fl.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2