fbpx
Fimmtudagur, janúar 9, 2025
target="_blank"
HeimKynningHvað er ungmennahús?

Hvað er ungmennahús?

Margrét Gauja Magnúsdóttir, deildarstjóri ungmennahúsa í Hafnarfirði, situr fyrir svörum

Hvað er ungmennahús eiginlega?

Ungmennahús er félagsmiðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára. Þau eru öll misjöfn eins og þau eru mörg og við í Hafnarfirði erum svo lánsöm að vera með tvö ungmennhús, Hamarinn á Suðurgötu 14 og Músik & mótor á Dalshrauni 10. Hamarinn býður uppá allskonar virkni eins og Úti-Hamarinn, Handavinnu-Hamarinn, Spunaspilar­ana, Ungmennaráð Hafnarfjarðar, Skapandi sumarstörf o.fl. en einnig er hægt að fá ráðgjöf frá Berginu, Head­space í Hamrinum og sálfræðiþjónustu, gjald­frjálsa. Einnig er hægt að koma og læra, slappa af, spjalla, spila Playstation, horfa á Netflix, spila pool eða borðtennis, föndra eða hvað sem fólki dettur í hug. Við hugsum Hamarinn sem „Safe Space“ eða rými sem er öruggt ungu fólki, að vera það sem það vill vera og gera það sem það vill gera. Músik & mótor er ögn öðruvísi því hún er fyrir allt ungt fólk á aldrinum 13-25 ára. Þar er hægt að sækja um herbergi, sem eru nýtt til ýmissar listsköpunar. Í flestum þeirra eru hljóm­sveitir með æfingaraðstöðu en einnig er myndlistarfólk með aðstöðu þar. Einnig erum við með stóran og geggjaðan bílskúr þar sem hægt er að koma fyrir a.m.k. 2 bílum í einu, til að gramsa í, eða eitthvað annað með hjólum á. Það er alltaf starfsmaður með þekkingu á verkfærunum á vakt til aðstoðar. Síðan erum við með upptökuhljóðver og hann Bigga sem tekur vel á móti öllum sem hafa áhuga á að taka upp tónlist. Einnig er hægt að koma í Músik & mótor og vera. Þar er líka Playstationtölva, borð­tennis, vínilspilari og vínilplötur og fúsball­spil. Mikilvægt er að það komi fram, að við erum einnig til staðar fyrir allt ungt fólk, ef það kemur með hug­myndir af klúbbum, virkni, við­burðum eða fleira. Við erum hérna til staðar fyrir allt ungt fólk bæjarins og okkar eina hlutverk er að þjónusta þau.

Úr ungmennahúsinu Hamrinum

Hver er opnunartíminn?

Hamarinn er opin, alla virka daga frá 09:00 – 23:00 og Músik & mótor er opin frá 17:00 til 22:00 öll virk kvöld. Ef fólk vill nýta sér hljóðverið er best að mæta uppí Músik & mótor á mánudögum og miðvikudögum og hitta Bigga þar og bóka tíma. Einnig er hægt að nálgast okkur í gegnum Facebook- og Instagram­síður Hamarsins og Músik & mótor.

Er eitthvað sérstakt á döfinni hjá ykkur á næstunni?

Já, við erum núna á fullu að skipuleggja Apolló, listahátíð ungs fólks í Hafnarfirði. Okkur fannst Apolló nafnið svo viðeigandi þar sem það er litríkt lakkrís­konfekt sem var einu sinni framleitt í Músik & mótor, þegar Lakkrísgerðin var þar. Við fengum styrk frá Ferða- og menningarmálanefnd Hafnarfjarðar fyrir tveimur verkefnum, sem við sjóðum saman í eitt og verður allur október­mán­uður undirlagður undir Apolló.

Föstudaginn 30. september ætlum við að vera með opnunarhátíð á báðum stöðum, Hamrinum og Músik & mótor og svo verða fyrstu fjórar helgarnar í október undirlagðar undir vinnustofur af ýmsum toga sem allt ungt fólk, á aldrinum 13-25 ára, getur skráð sig í. Við munum bjóða uppá vinnustofur í skapandi skrifum, vegglistagerð, förðun, dragi, krítatöflugerð, kökuskreytingum, ljósmyndun o.fl. Einnig munum við bjóða uppá vinnustofur í samtarfi við samtökin Stelpur rokka! og er öllum stelpum og kynsegin, sem hafa áhuga á tónlist, boðið að taka þátt. Allar vinnustofurnar munu því miður vera með hámarksfjölda og einhvern þátttöku­kostnað en honum er haldið í algjöru lágmarki, mest 5000 krónur, en einnig er hægt að sækja um námstyrk til okkar. Síðasta helgin í október fer svo í uppskeruhátíðina, þar sem íbúar geta komið á sýningar og kynnt sér afurðirnar. Við erum mjög spennt fyrir þessari litlu listahátíð og vonandi verður þátttakan geggjuð og þessi fyrsta listahátíð ungs fólks í bænum mun festa sig í sessi.

Hægt verður að nálgast allar upp­lý­singar á heimasíðu Hafnarfjarðar­bæjar og Facebook- og Instagramsíðu Hamarsins.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2