fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimKynningMörg mismunandi störf í Vinnuskóla Hafnarfjarðar

Mörg mismunandi störf í Vinnuskóla Hafnarfjarðar

Brynja Birgisdóttir er 26 ára Hafnfirðingur og skrifstofustjóri Vinnuskóla Hafnarfjarðar

Skrifstofustjóri Vinnuskóla Hafnar­fjarðar er Brynja Birgisdóttir og felst hennar starf í því að ganga frá ráðningar- og launamálum, kynningum og umsjón með skrifstofu Vinnuskólans sem núna er starfræktur að Suðurgötu 14. Blaðamaður lagði nokkrar spurningar fyrir Brynju um starfið.

Hver ert þú og af hverju ert þú skrifstofustjóri Vinnuskólans?

Ég er 26 ára Hafnfirðingur með Bs. gráðu í sálfræði og master í mann­auðs­stjórnun. Ég sóttist upphaflega eftir þessu starfi þar sem ég þekkti vel til Vinnu­skólans og fannst þetta vera vett­vangur þar sem ég gæti nýtt menntun mína að einhverju leiti. Þetta er annað árið í röð sem ég sinni þessu starfi en Vinnuskólinn er ótrúlega skemmtilegur og lifandi vinnustaður og ég hef verið ótrúlega heppin með samstarfsfólk sem mörg hver eru að koma aftur í sumar.

Varst þú ungmenni í Vinnuskólanum?

Já, ég var bæði í almennum hópum og á leikjanámskeiði og hafði mjög gaman af. Það er svo ótrúlega dýrmætt að geta eytt sumrinu í að vinna með vinum sínum sem er alls ekki sjálfgefið eftir því sem maður eldist. Það var því alltaf mikið fjör í Vinnuskólanum og ég á ekkert nema góðar minningar frá þessum tíma. Þegar ég var orðin 18 ára fór ég síðan í blómahóp sem var ótrúlega skemmtilegt líka og ég endaði á því að vera yfir þeim hóp nokkur sumur. Það er alveg frábært að geta unnið úti á sumrin þó að sumar á Íslandi þýði reyndar ekki alltaf að það sé sól og blíða.

Hvers vegna ættu hafn­firsk ungmenni að starfa í Vinnuskólanum?

Vinnuskólinn er hugsaður sem fyrsti vinnustaður ungmenna þar sem þau læra hvernig það er að vera hluti af vinnu­markaðnum í öruggu starfsumhverfi. Þetta eru því oft þeirra fyrstu kynni af launuðu starfi og hafa þau gott og gaman af því að starfa úti með sínum jafnöldrum. Vinnuskólinn snýst nefnilega ekki ein­ungis um sjálfa vinnuna heldur er hann líka hugsaður til að efla ungmennin félags­­lega, hjálpa þeim að viðhalda rútínu og draga úr líkum á því að þau einangrist yfir sumartímann. Við leggj­um þess vegna mikið upp úr því að það sé líka gaman í vinnunni og höfum brot­ið upp vinnudagana til dæmis með því að bjóða uppá jafningjafræðslu, halda keppni um best hreinsaða beðið og sumarhátíð þegar líður á sumarið.

Geta allir fengið vinnu?

Öll ungmenni á aldrinum 14-17 ára sem sækja um fá vinnu við Vinnuskólann. Við reynum eftir fremsta megni að verða að óskum um starfsstaði en því miður er ekki hægt að þóknast öllum. Við erum síðan einnig með fjölbreytt störf fyrir 18 ára og eldri en þessum aldri er ekki lofuð vinna og sækja þau því um hjá Vinnu­skólanum eins og annarstaðar.

Hver eru helstu verk­efni Vinnuskólans?

Í Vinnuskólanum eru mörg mismun­andi störf í boði og geta ungmenni t.d. valið um að vinna í almennum hópum, hjá íþróttafélögum, í listahóp, á leik­skólum og leikjanámskeiðum. Það hefur verið ákveðinn tröppugangur á þessu hjá okkur svo líkurnar á því að komast á aðra starfsstaði aukast með aldrinum en við leggjum upp með að allir byrji í almennum hópum og geti svo seinna meir sóst eftir öðrum störfum. Eitt helsta verkefni ungmenna í Vinnuskólanum er að sjálfsögðu að halda bænum okkar fallegum, hirða beð, hreinsa skólalóðir og fleira. Til þess erum við einnig með hópa fyrir 18 ára og eldri sem sjá t.d. um slátt og gróðursetningu blóma.

Geta allir verið í fjölskyldugörðunum?

Já, fjölskyldugarðarnir eru komnir í staðin fyrir skólagarðana. Í dag getur hver sem er sótt um slíkan garð, ungir sem aldnir og er þetta því tilvalið tæki­færi fyrir einstaklinga eða fjölskyldur sem hafa ekki tök á því að rækta í eigin garði. Aðgengi að vatni og einhver áhöld verða á staðnum en fólk þarf að koma með sitt grænmeti sjálft og ræður því alfarið hvað það ræktar. Garðarnir verða plægðir í lok maí og eftir það verður hægt að byrja að huga að sínum garði.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2