Fullt er út að dyrum í dag í Hraunseli á kynningarfundi um heilsueflingu fyrir allt að 160 íbúa í Hafnarfirði, 65 ára og eldri en Hafnarfjarðarbær samdi nýlega við Janus heilsueflingu slf. til eins og hálfs árs um slíka heilsueflingu. Verður hún í formi styrktarþjálfunar tvisvar í viku og þolþjálfunar einu sinni í viku undir handleiðslu þjálfara.
Frá fundinum – smellið á hátalarann neðst til hægri á myndinni til að hlusta.
Upphafið að þessu verkefni er doktorsverkefni Janusar Guðlaugssonar, PhD-íþrótta- og heilsufræðings; Fjölþætt heilsurækt – Leið að farsælli öldrun. Sambærilegt verkefni hefur verið í gangi síðan í vor í Reykjanesbæ með mjög góðum árangri. Mælingar hafa sýnt fram að þátttakendur hafa náð að losa sig við einkenni sykursýki B og þá var dæmi þess að þátttakandi gaf göngugrindina sína í þarfari verkefni um jólin þar sem hann var ekki lengur bundinn notkunar á henni eftir hálfs árs þátttöku í verkefninu.
Hver og einn þátttakandi fær einstaklingsmiðaða æfingadagkrá sem gerð verður í kjölfar mælinga á þreki, styrk og líkamlegs ástands hvers og eins. Æfingar fara fram í fámennum hópum undir leiðsögn fagfólks. Auk þol- og styrktaræfinga verður þátttakendum einnig boðið upp á fyrirlestra um hollt mataræði og lífsstíl.
Samningurinn er liður í áherslu sveitarfélagsins í þá veru að hvetja og efla íbúa sína til hreyfingar og hollra lífshátta.
Sparnaður og stórbætt lífsgæði
Dæmi um forvarnargildi verkefnisins fyrir sveitarfélög eins og Janus kynnti á fundinum:
- Að seinka um eitt ár að einstaklingur fari inn á dvalar- og hjúkrunarheimili sparar kostnað sam samsvarar því sem kostar að vinna með um 80-100 eldri borgara í forvarnarleiðinni.
- Að seinka um eitt ár að 100 eldri einstaklingar fari inn á dvalar- og hjúkrunarheimili jafngildir ávinningi um 1,3 milljarði króna.
- Þetta er fyrir utan stórbætt lífsgæði þátttakenda.
Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að þetta sé ný nálgun á sviði heilsu og velferðarmála sem þurfi að taka alvarlega og veita athygli: „Hún er öllum til tekna, bæði þeim sem stjórna ríki og sveitarfélögum en ekki síst þeim sem tekur þátt og vill dveljast lengur í sjálfstæðri búsetu eða geta sinnt athöfnum daglegs lífs lengur.“
Janus segir mikilvægt að vinna gegn þáttum sem stuðla að þróun kyrrsetulífsstíls með aukinni daglegri hreyfingu, breyttri og bættri matarmenningu, nægum svefni og breyttum hugsunarhætti. „Ýmislegt er gert til að þessir þættir nái fram að ganga en þeir falla allir undir þá áætlun sem þátttakendur eru nú að fylgja. Lífsstílsbreyting er maraþonhlaup en ekki spretthlaup. Það sem skiptir máli fyrir þátttakendur er að viðhalda þeim lífsstílsbreytingum sem þegar hafa litið dagsins ljós eða eiga eftir að gera það að lokinni sex mánaða þjálfun. Því er nauðsynlegt að styðja þau áfram í þessu breytingarferli hafi þau áhuga að halda því áfram.“