Síðasta miðvikudag hlupu nemendur og starfsfólk Skarðshlíðarskóla Míluna í eitt hundraðasta sinn. Verkefnið er að skoskri fyrirmynd sem heitir „The Daily Mile“ en um 5000 skólar víðs vegar um heiminn eru þátttakendur í verkefninu en Skarðshlíðarskóli er fyrsti og eini íslenski skólinn sem tekur þátt.
Í tilefni tímamótanna tóku ýmsir fleiri þátt þennan dag og þarna mátti sjá Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra á hlaupum, Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúa og Þórdísi Gísladóttur, fyrrum hástökkvara og lektor í HÍ í deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda en hún heimsótti nokkra bekki og hvatti fólk til dáða fyrr um morguninn.
Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning fyrir alla með þessari einföldu leið. Má þar nefna betri líðan, aukið sjálfstraust, betri einbeitingu, betri samskipti, minni streitu og kvíða og aukna þrautseigju. Auk þess er þetta öflug leið til að bregðast við offitu og kyrrsetu.
„Það er til mikils að vinna og við erum nú þegar farin að sjá mikinn árangur efir að hafa farið í Míluna hundrað sinnum,“ segir Kristín Laufey Reynisdóttir deildarstjóri í Skarðshlíðarskóla.