fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanÞegar allt virðist svart, er það ég sem held fyrir augun?

Þegar allt virðist svart, er það ég sem held fyrir augun?

Sleppa takinu.. Halda áfram

Ég spyr mig oft að því hvert ég sé að fara í lífinu, þrátt fyrir að vera þar sem ég valdi upphaflega að vera. Hver gerir það ekki s.s stundum? Tilgangurinn með því að endurskoða hvert ég stefni af staðnum sem ég er á núna er sá, að ég veit ekkert hvenær sú leið gæti lokast. Því maður getur ekki stjórnað lífinu alfarið. Né því sem annað fólk raðar upp fyrir leið manns vitandi eða óafvitandi. Fólk sem veit ekki einu sinni að maður er til.

Ég á ekki að þurfa að lifa í heimi þar sem ég þarf að vera á varðbergi fyrir því að markmið mín og draumar um næstu skref, hag og velferðar fjölskyldunnar, verði rafmagnslaus og detti í sundur. Vegna þess eins að ég taldi mig vera á ákveðinni leið, sem er nú lokið.
Nú í vikunni komst ég að því að öryggisnetið sem ég var sjá fyrir mér að myndi verða næsti starfshjalli minn lokaðist og ég kemst ekki að, þrátt fyrir að allt benti að það yrði næsti lendingarstaður minn, í ljósi vinnunar sem ég hef lagt á mig til þess fram að þessu. „Nei, nú er mér allri lokið“ hugsaði ég með mér. „Þetta var besti kosturinn, af hverju ætti ég að velja eitthvað annað héðan af?“ Eðlilegar fyrstu hugsanir, myndi einhverjum detta í hug.

Þó upp komi eilítil sorg í hjarta er mikilvægt að leggjast ekki í gólfið og gefast upp

Ég krafðist huggunar innra með mér. En að festast þar og ríghalda í að kannski opnist leiðin, er eins og vera týnt barn í Kringlunni sem æðir út um allt og finnur ekki mömmu sína, enn volgt í lófanum eftir hitann frá henni áðan. Þó upp komi eylítil sorg í hjarta er mikilvægt að leggjast ekki í gólfið og gefast upp. Væri þá ekki betra að standa á áberandi stað og kalla jafnvel á hjálp. Því auðvitað er mamma að leita að manni og þarf þess vegna á því að halda að maður sé kyrr á sínum stað og skima um af skynsemi eftir næstu mögulegu leið. Finnur maður ekki þá frekar tilgang sinn?

Mér finnst ég sem sagt, þrátt fyrir alla sigra mína, eins og ég sé eilítið týnd. Ég veit að ég er sigurvegari. Að ég vandi mig í starfi og elski að dreifa gleðinni. Mig grunar bara ekki að það falli vel í geðið hjá öllum eða að það sé pláss fyrir það. Þetta varðar nefnilega starfsvettvang.

„Þið vinnið ekki fyrir mig lengur“

Þess vegna er ég smeyk við að viðurkenna að ég viti ekki hvert ég eigi að mæta, til að eiga fyrir salti í grautinn og geta keypt sokka á börnin. Þau eru víst líka að vaxa. Bara ekki á sama hátt og mamman. Starfsumsóknir munu að sjálfsögðu verða sendar út um allan bæ. Allar mínar bestu hliðar munu verða sýndar og ég mun fá á tilfinninguna að ég sé að detta úr frjálsu falli. Sýnir efasemda minna og minningar um liðið vonleysi munu poppa upp. En hvernig mæti ég því eins og sigurvegari? Þakklæti. Svarið er þakklæti. Því með því næ ég aftur tengingu við mig. Kraftinn minn. Sannleikann minn.

Ég hef hef hæfileikann til að ráða við varanlega erfiðleika, sérstaklega því ég sé muninn á því hvort ég hafi flóknar leiðir fyrir framan mig eða einfaldar. Flókna leiðin er að mála þetta upp eins og vonbrigði.

Einfalda leiðin er að horfa í augun á eigin djöflum sem koma upp á þessari slóð og segja við þá: „Þið vinnið ekki fyrir mig lengur“.

Dómararöddin mun hljóðna eitt augnablik. Og þegar hún rís upp aftur get ég sagt henni að hún hafi verið rekin fyrir löngu síðan. Nákvæmlega ekkert sem hún segir gagnast mér. Ósætti mitt liggur ekki við sjálfa mig.

Vanmátturinn er viðurkenndur og ég þarf ekki að fela mig fyrir honum, né ímynda mér að grasið sé grænna hinum megin. Þetta er spurning um að vera stór stelpa. Eins og alltaf þegar lífið skellur á. Djöflarnir og dómararöddin vinna nefnilega saman. Sérhlífnin er deyfandi afl. Innst inni veit ég að ég get þetta alveg. Aðalrótin á bak við hinn nýja heim liggur í mætti mínum til að taka skrefið yfir þröskuldinn.

Þá tengist ég þeim heimi..

Er ég að gleyma því að ég fæ kikk út úr því að takast á við nýjar leiðir? Að flest mín ævintýri hafa orðið til úr því að fylgja hjartanu og mæta lífinu með þakklæti?
Þetta er ekki auka álag á kerfinu mínu. Þetta er nýtt tækifæri að nýrri byrjun. Það reynir á sálræna styrkinn minn. Af hverju?

Því þetta er ekki áfall. Ég þarf að stimpla það inn. Til þess að lifa aðstæður betur af, þarf maður oft að minnka kröfurnar. Svo að við náum að njóta augnabliksins. Þá gerum við hlutina viðráðanlegri með því að einfalda líf okkar. Og beinum hugsunum og tilfinningum okkar inn á við. Svo verður það ósjálfrátt til þess að við sækjum styrkinn í gildin okkar. Þannig virkar mannskepnan. En ég þarf ekki að gera það. Ég er ekki föst. Ég er enn örugg í eigin faðmi. Ég bara vissi það ekki.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2