fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimLjósmyndirGömlu myndirnar - Þegar jarðýtu þurfti til að ryðja íbúðagötur

Gömlu myndirnar – Þegar jarðýtu þurfti til að ryðja íbúðagötur

Á sjöunda áratugi síðustu aldar voru flestar götur bæjarins malargötur en Strandgatan og Vesturgatan voru þó steyptar sem og Kanavegurinn sem heitir í dag Reykjanesbraut. Hét hann þá reyndar Keflavíkurvegur en gekk í daglegu tali undir nafninu Kanavegurinn en Bandaríkjamenn komu að lagningu vegarins til að tryggja samgöngur við Keflavíkurflugvöll.

Reyndar voru brekkurnar upp úr Engidalnum og Reykdalsbrekkan ekki steyptar strax og muna margir eftir skiltum sem á stóð: Varúð! Steyptur vegur endar, 200 metrar.

Þá fóru um bæinn tveir vegheflar í eigu Hafnarfjarðarbæjar, sá stóri og sá litli sem fylgdi í kjölfarið og hreinsaði hraukana sem mynduðust eftir stóra hefilinn.

Í þá daga voru margar götur notaðar sem sleðagötu enda bílaeign ekki nærri eins mikil og í dag. Ein þessara gatna var Brekkuhvammur þar sem strákarnir léku sér á hjólatíkum á sumrin og kepptumst um að ná sem mestum hraða áður en hægt var á ferðinni með því að taka krappa beygju til vinstri á Smárahvamminum, sem nú heitir Smárabarð.

Um 1965 þegar Kaupfélagshúsið neðst við Brekkuhvamm var enn í byggingu snjóaði gríðarlega á nýju ári. Þá kom jarðýta, reyndar ekki af stærstu gerð, og ýtti snjónum í burtu enda var hann val á annan meter á hæð.

Á skíðum í garðinum að Brekkuhvammi 4. F.v.: Guðni Gíslason, Þórunn S. Guðmundsdóttir og Elín Gísladóttir. Ljósmynd: Gísli Jónsson.
Guðni, núverandi ritstjóri Fjarðafrétta á skíðum í heimagarðinum. – Ljósmynd: Gísli Jónsson.

Þá komu skíðin sem börnin fengu í jólagjöf sér vel eins og meðfylgjandi mynd sýnir þar sem snjórinn náði lang leiðina upp á þak.

Myndirnar tók Gísli Jónsson, sem þá var rafveitustjóri í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2