Á ljósmynd dagsins má sjá sjoppuna á Hvaleyrarholti og Hafnarfjarðarstrætisvagn frá Landleiðum. Myndin er tekin á áttunda áratugi síðustu aldar en í dag er þarna bílastæði við íbúðablokk og Landleiðavagnarnir horfnir. Þetta var endastöð strætisvagna í Hafnarfirði.
Hins vegar fór Keflavíkurrútan þarna framhjá því þá lá Suðurgatan (nú Suðurbraut) áfram yfir holtið og tengdist Keflavíkurveginum eða Kanaveginum eins og hann var sennilega oftar kallaður í Hafnarfirði. Í dag heitir sá vegur Reykjanesbraut. Eins og sjá má eru kantsteinar nýlegir á myndinni en gatan var ekki malbikuð fyrr en um 1974. Fram að því máttu íbúar þola rykmökkinn af götunni sem oft var saltblandaður af sjó sem notaður var til rykbindingar. Trjágróður á lóðum næst götunni tók mikinn vaxtarkipp um leið og búið var að malbika.
Fróðlegt væri að vita hvenær sjoppan var byggð upphaflega en hún var a.m.k. komin þarna upp úr 1960.