Stytting vinnuvikunnar er lýðheilsumál. Við höfum lengi verið sú þjóð sem státar sig af því að vinna, lengi og mikið. Hverju hefur það skilað okkur? Eru afköst okkar meiri en þjóða með styttri vinnutíma? Er framleiðni okkar meiri? Eru lífsgæði okkar meiri? Svarið er nei. Þegar kemur að samanburði við aðrar þjóðir, þá eru framleiðni og lífsgæði þjóða með styttri vinnuviku meiri en hjá okkur, vinnuglöðu þjóðinni. Frá því að 40 stunda vinnuvika var lögfest 1972 þá hefur margt breyst í þjóðfélaginu okkar. Við getum afkastað meira á styttri tíma, unnið sífellt fleiri störf að heiman og eðli starfa okkar hafa breyst. Við finnum sífellt fleiri leiðir til að hafa í við aukinn hraða í samfélaginu. Borða hraðar, komast hraðar á milli staða til þess að sækja börn úr dagvistun eða tómstundum. Við vöknum í myrkri stærstan hluta árs, sviptum börn svefni, borðum seint, fáum okkur aukabíl til þess að ná að halda í við vinnutímann sem byrjar snemma hjá flestum. Við höfnum vinnum sem eru of fjarri heimilinu og veljum tómstundir fyrir börnin sem passa inn í okkar hröðu dagskrá. Það er með vilja gert að ég tel það upp sem á við hið átta klukkustunda vinnusamfélag, því í kringum það snýst okkar samfélag. Píratar vilja uppfæra samfélagið í takt við nútímann og ekki síst, framtíðinni þar sem við getum nýtt okkur þróunina sem hefur átt sér stað til góðs. Styttum vinnuvikuna, seinkum upphafi skóladags og veitum fólki meiri frítíma til þess að geta, með minna striti, meiri orku og skilvirkni notið þeirra gæða sem við gætum státað okkur af.
Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir
oddviti Pírata í Hafnarfirði