fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanHættum þessu togi - Vinnum saman

Hættum þessu togi – Vinnum saman

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Sveitarstjórnarmál hafa ávallt verið mikilvæg en þýðing þeirra hefur líklega aldrei verið jafnmikil og nú. Fleiri verkefni og víðtækari eru nú á ábyrgð sveitarfélaga. Grunnskólar, málefni fatlaðra, sorpframkvæmdir, húsnæðismál, skipulag og samgöngur svo fátt eitt sé nefnt. Ákvarðanir sem snerta hið daglega líf bæjarbúa þarf að vanda og fulltrúar í sveitarstjórnum verða að vera meðvitaðir um þá miklu ábyrgð sem fylgir starfinu. Starfi sem getur verið gefandi og krefjandi í senn. Líkt og í landsmálum.

Átök í stjórnmálum munu eflaust ávallt vera til staðar enda hugsjónir sem takast á og sýn stjórnmálaflokka um markmið og leiðir ólíkar. Átakastjórnmál eru hins vegar ekki knýjandi nauðsyn, alltaf og alls staðar. Í raun má leiða líkum að hinu gagnstæða. Sér í lagi á sveitarstjórnarstiginu. Verkefni morgundagsins fyrir Hafnfirðinga krefjast þess að fólk vinni betur saman, ekki síst þegar litið er til sögunnar.

Sjálf hef ég upplifað eitt og annað í pólitík innan Hafnarfjarðar og heyrt talað um helvítis kratana eða andskotans íhaldið. Þegar kratar stjórnuðu bænum var lítið samstarf haft við minnihlutann nema rétt á yfirborðinu og það var gagnkvæmt þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Meirihlutaræðið var algert, hver sem átti í hlut. Kannski var þetta skiljanlegt þá en í nútímasamfélagi er svona togstreita í besta falli brosleg fyrir bæjarbúa, í versta falli skaðleg.

Hættan við þessi endalausu átök, oft vegna þvergirðingsháttar, er sú að þau geta seinkað mikilvægum ákvörðunum fyrir bæjarbúa, öllum til tjóns. Bæjarstjórnarfólk í gegnum tíðina hefur kennt ríkisvaldinu um eitt og annað. Oft hefur það verið með réttu. En það má líka spyrja sig að því hvort þessi gamalgróna togstreita í Hafnarfirði hafi leitt til seinkunar á hjúkrunarrýmum, línulögnum, skólauppbyggingu eða samgöngubótum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Við í Viðreisn viljum gera fallega bæinn okkar enn betri en það er breytinga þörf á vinnulagi og stefnumótun í bæjarstjórn.

Lykilatriði er að stjórnmálamenn taki ákvarðanir út frá hagsmunum bæjarbúa en ekki út frá flokkshagsmunum til hægri eða vinstri. Þetta er einfalt – að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Þannig mun Viðreisn vinna í bæjarstjórn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Hafnfirðingur og formaður Viðreisnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2