fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanForeldar og þjálfarar langþreyttir á aðstöðuleysi

Foreldar og þjálfarar langþreyttir á aðstöðuleysi

FH athugar með að byggja sjálft knatthús í Kaplakrika

Aðalstjórn Fimleikafélags Hafnarfjarðar hefur hafið athugun á að félagið byggi knatthús í Kaplakrika, en knatthús þetta verður þá þriðja knatthúsið sem félagið byggir. Athugun þessi er sett af stað í kjölfar ályktunar fjölmenns fundar foreldra barna og unglinga sem stunda knattspyrnu í félaginu. Ályktun fundarins var svohljóðandi:

„Foreldrar á opnum fundi Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar FH skorar á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og aðalstjórn félagsins að bæta úr aðstöðu til knattspyrnuæfinga og -keppni í Kaplakrika nú þegar. Samkvæmt skýrslu íþróttafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá því í maí 2017 er aðstaða til knattspyrnuæfinga í Kaplakrika löngu sprungin. Hafnarfjarðarbær hefur aftur á móti ekki gripið til neinna aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem lýst er í skýrslunni. Foreldrar þeirra barna sem æfa knattspyrnu hjá FH greiða nú þegar með beinum hætti fyrir aðstöðu í Kaplakrika með fordæmalausum leigusamningi um afnot af knatthúsum í Kaplakrika, rúmar 25 milljónir króna á undanförnum 3 árum. Foreldrar þeirra barna sem æfa knattspyrnu hjá FH hafa á undanförnum árum sýnt þolinmæði og langlundargeð, enda haft væntingar um að úrbætur séu innan seilingar. Nú er þolinmæðin hinsvegar á þrotum og það er skýlaus krafa okkar að þau börn sem stunda knattspyrnu undir merkjum FH fái sömu möguleika og tækifæri til að æfa og keppa og börn í öðrum íþróttagreinum í Hafnarfirði.“

Eins og fram kemur í ofangreindri ályktun er skorað bæði á Hafnarfjarðarbæ og aðalstjórn Fimleikafélagsins að bæta úr aðstöðu þeirra barna og unglinga sem stunda fótbolta innan félagsins, skýr krafa á aðalstjórn FH og Hafnarfjarðarbæ. Aðalstjórn FH hefur undanfarna mánuði og ár átt í viðræðum við Hafnarfjarðarbæ til lausnar en enn sem komið er hafa aðalstjórn FH og Hafnarfjarðarbær ekki komist að niðurstöðu til lausnar.

Allmörg ár eru síðan að mikil fjölgun fótboltaiðkenda hjá Fimleikafélaginu sprengdi núverandi æfinga- og keppnisaðstöðu utan af sér. Plássleysið hefur verið leyst tímabundið með leigu á tímum á gervigrasvöllum í öðrum sveitarfélögum. Fjölgun knattspyrnuiðkenda á öllu höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til þess að æfingartímar hjá öðrum félögum eru einungis í boði seint á kvöldin, á tímum sem henta ekki yngri iðkendum félagsins. Til lausnar hinum mikla aðstöðuvanda telur aðalstjórn FH að engan tíma megi missa varðandi athugun á mögulegum lausnum. Félagið hefur þegar látið fullhanna slíkt hús fyrir eigin reikning og framkvæmdir ættu því, ef grundvöllur er fyrir, að geta hafist fljótlega.

Rekstrarform knatthússins verður skoðað og fjármögnun byggingarinnar en þar verða bæði skoðuð frjáls framlög félagsmanna, leigutekjur frá þriðja aðila og þá einnig umtalsverð hækkun á æfingagjöldum iðkenda. Því miður er talið líklegt að hækkun gjaldanna muni þýða að hluti iðkenda félagsins velji að leita annað. Reynt verður að hraða byggingu knatthússins ef af verður til að mörg hundruð iðkendur félagsins geti æft við sómasamlegar aðstæður allt árið um kring og á tímum sem falli undir hefðbundinn útivistartíma viðkomandi aldurshóps.

Félagið stendur frammi fyrir tveimur slæmum kostum, annarsvegar takmörkun á iðkendafjölda og láta núverandi aðstöðu duga eða hinsvegar fara í umtalsverða hækkun æfingagjalda sem gangi til fjármögnunar byggingarinnar. Öflugt og árangursríkt uppeldisstarf félagsins síðustu ár verður að engu ef FH-ingar geta ekki æft og keppt við sambærilegar aðstæður og önnur félög.

Knattspyrnudeild félagsins mun á næstu vikum kynna breytingarnar sem verða á starfi knattspyrnudeildarinnar á komandi vetri en sumarstarf deildarinnar verður óbreytt.

Hafnarfirði 18. maí 2018

f.h. aðalstjórnar FH
Viðar Halldórsson, formaður.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2