Húsnæðismál eru ein af grunnstoðum velferðarkerfisins. Öll þurfum við þak yfir höfuðið – við þurfum húsnæðisöryggi óháð efnahag og búsetu. Það er ein lykilforsenda heilbrigðs samfélags.
Hlutverk sveitarfélaga
Eftirspurn eftir húsnæði hefur verið meiri en framboðið og slíkt skapar vandamál og hækkar verð. Uppbyggingin hefur samt verið meiri á höfuðborgarsvæðinu en áður og hafa öll sveitarfélögin tekið þátt í þeirri uppbyggingu að Hafnarfirði undanskildum. Fjöldi íbúða í byggingu í Reykjavík er 1726, 1048 í Kópavogi, 594 í Garðabæ, 550 í Mosfellsbæ en aðeins 150 í Hafnarfirði. Hlutfallslega er aukningin því minnst í Hafnarfirði og Reykjavík. Á fundi Samtaka iðnaðarins nýverið kom fram að byggja þurfi 45 þúsund íbúðir á næstu 22 árum. Við höfum skyldu að gegna gagnvart samfélaginu okkar. Við þurfum að byggja skynsamlega og fylgjast með að ekki sé byggt of mikið. Þetta er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og eru húsnæðisáætlanir gott verkfæri þegar kemur að eftirliti, en slíka áætlun er ekki að finna í Hafnarfirði. Húsnæðisáætlun gefur okkur ekki bara raunverulega mynd af stöðu mála, heldur líka tækifæri til að greina framboð og eftirspurn eftir mismunandi húsnæðisformum og setja okkur áætlun um það hvernig skuli bregðast við, í nútíð og framtíð.
Við þurfum lausnir – og erum með þær
Bjarg íbúðafélag er sjálfseignarstofnun sem rekin er án hagnaðarsjónarmiða sendu bæjarfélaginu bréf vegna íþyngjandi skilmála sem leiddu til þess að byggingarkostnaður hækkaði umtalsvert. Við í Framsókn og óháðum munum vinna að gerð húsnæðisáætlunar, tryggja nægt framboð lóða, skipuleggja ný svæði og ráðast í endurskoðun á skilmálum og gjöldum sveitarfélagsins með það að markmiði að þau lækki og skili sér í lægra verði. Hafnarfjörður á að vera samfélag þar sem allir fái notið sín. Sameinumst um þetta verkefni – við erum sterkari saman.
Ágúst Bjarni Garðarsson
oddviti Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði.