Í desember 2006 samþykkti Allsherjarþing SÞ samning um réttindi fatlaðs fólks. Þessi mannréttindasáttmáli markaði tímamót því þar staðfesti alþjóðasamfélagið nýjan skilning á fötlun og kröfu um mannréttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Íslensk stjórnvöld hafa fullgilt Samninginn, undirgengist að uppfylla ákvæði hans og sett ný lög til að innleiða ákvæði hans hér á landi. Þar ber hæst lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, samþykkt 26. apríl sl á Alþingi.
Sagan og mannréttindabaráttan
Saga fatlaðs fólks hefur einkennst af félagslegri útskúfun, aðgreiningu frá daglegu lífi samfélagsins og einangrun á sérstofnunum, meðal annars á sólarhringsstofnunum. Skaðsemi slíkra stofnana fyrir fatlað fólk – börn og fullorðna – hefur margsinnis verið staðfest í rannsóknum. Kjarni alþjóðlegrar mannréttindabaráttu fatlaðs fólks síðustu áratugi hefur því snúist um að loka sólarhringsstofnunum og öðrum aðgreindum úrræðum, og vinna að umbótum sem eru til þess fallnar að tryggja öllu fötluðu fólki sjálfstætt líf í samfélaginu, til jafns við aðra.
Nýr sáttmáli og ný lög gera nýjar kröfur
Í 1. gr samnings SÞ segir: „Markmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra.“ Eitt af grundvallaratriðum sáttmálans er „full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar“ (3. gr). Í nýjum lögum um aðstoð við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir segir meðal annars: „Fötluðu fólki skal standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess.“ (8.gr). Sáttmálinn og nýju lögin gera nýjar kröfur um hvernig unnið skuli að málefnum fatlaðs fólks. Ábyrgð á málefnum fatlaðs fólks er hjá sveitarfélögum. Hafnarfjarðarbær þarf því að tileinka sér ný vinnubögð til að markmiðið um mannréttindi fatlaðs fólks, til jafns við aðra, verði að veruleika.
Rannveig Traustadóttir
er í 15. sæti á lista VG.