Ágæti kjósandi. Á laugardaginn göngum við til sveitarstjórnarkosninga. Þá gefst þér tækifæri til hafa áhrif á það hverjir sitja í bæjarstjórn næstu fjögur ár. Kosningarétturinn er dýrmætur og hann eigum við alltaf að nýta. Það er á ábyrgð okkar sem erum foreldrar að brýna fyrir börnum okkar að með atkvæði getum við haft áhrif.
Af hverju Samfylkingin?
Flokkar hafa ólíka sýn og ólíka nálgun. Samfylkingin er flokkur jafnaðarfólks og okkar megin hugsjón er að allir hafi jöfn tækifæri í lífinu. Við viljum eitt samfélag fyrir alla, samfélag sem byggir á jöfnuði, jafnrétti, kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd, heilbrigðri samkeppni og mannréttindum. Þetta eru jafnframt meginástæðurnar fyrir því að ég er jafnaðarmanneskja.
Þar sem Samfylkingin byggir á grunngildum um jafnrétti og jöfn tækifæri leggjum við áherslu á almannahagsmuni en höfnum því að vinna fyrir sérhagsmuni. Við leggjum áherslu á fagleg, lýðræðisleg og opin vinnubrögð. Við viljum aukið samráð við íbúa og að þú, kæri kjósandi, getir haft áhrif á ákvarðanatöku t.d. varðandi skipulagsmál og framkvæmdir.
Sterk Samfylking skiptir máli
Skoðanakannanir sýna að Samfylkingin er eini raunverulegi valkosturinn við Sjálfstæðisflokkinn. Það er því afar mikilvægt að hún komi sterk út úr þessum kosningum. Það er forsenda breytinga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og forsenda þess að fólkið verði sett í forgang.
Samfylkingin vinnur í þágu almannahagsmuna og í þessum kosningum höfum við lagt mesta áherslu á þrjá málaflokka, húsnæðismál, leikskólamál og málefni eldri borgara. Það er auðvitað fjölmargt fleira í okkar stefnu sem ég hvet þig til að kynna þér á xshafnarfjordur.is.
Á þessu kjörtímabili finnst okkur ekki hafa verið lögð nægjanleg áhersla á íbúana og þjónustu við þá. Við viljum setja fólkið aftur í forgang. Ef þú vilt það líka, þá setur þú X við S.
Adda María Jóhannsdóttir
skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar.