fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkólamál1984 í kennslu?

1984 í kennslu?

Már Wolfgang Mixa skrifar um i-Pad væðingu í skólum

Það er nauðsynlegt að skólar fylgi þeim tækniframförum sem eiga sér stað hverju sinni. Menntun er máttur og í dag felst máttur þekkingar í að nýta sér tæknina. Undanfarið hafa skólar í Hafnarfirði gefið nokkrum árgöngum i-Pad spjaldtölvur. Hugmyndin er líklega sú þeir læri betur með i-Pad spjöldum. Samhliða því eiga nemendur að búa til reikning á Google þannig að hægt sé að færa umsjón námskeiða yfir á Google Classroom, kerfi sem Google hannaði sérstaklega fyrir skóla. Google Classroom  er ókeypis.

1984 umhverfi

Eins og komið hefur fram í fréttum undanfarið, er notkun slíkra forrita þó ekki án gjalds þótt hún sé ókeypis. Gjaldið felst í að fólk samþykkir að fyrirtæki geti nýtt sér og framselt til annarra allskonar upplýsingar um það sjálft. Komið hefur til dæmis í ljós að miðlar eins og Facebook hafi verið misnotaðir af öflum til að hafa áhrif á kosningahegðun.

Engin rannsókn að því er ég best veit hefur verið gerð í mínum heimabæ, Hafnarfirði á hvernig til hefur tekist til varðandi notkun i-Pad í skólastarfi, sem þó hefur verið gerð í tilraunaskyni í ákveðnum skólum í töluverðan tíma. Hefur hún bætt námsárangur, hefur fjölbreytni í úrlausnum skilað sér?  Hefur hún aukið þann tíma sem nemendur verja í tölvuleikjum og áhorfi almennt með spjaldtölvum?

Nei takk i-Pad

Sonur minn vildi ekki skrá sig í Google Classroom og notaði því ekki i-Pad sem hann fékk frá skóla sínum í tengslum við nám sitt. Ástæðan er að hann hefur áhyggjur af persónuverndarmálum og þessari söfnun upplýsinga á gögnum sem hann grunar að eigi sér stað í gegnum Google Classroom.  Sjálfur notaði hann ekki i-Pad í námi, enda eru þær afar óhentugar til slíks.  Eftir nokkrar vikur hlustandi á tónlist með spjaldtölvunni ákvað hann upp á sínu eindæmi að skila spjaldtölvunni.

Með almennri notkun á Google Classroom er ungum einstaklingum (og reyndar á öllum aldri víðsvegar í heiminum) stillt upp við vegg. Ef þeir skrá sig ekki inn á Google Classroom lenda þeir í vandræðum með að taka þátt í skólastarfi þar sem að ætlast er til þess að Google Classroom sé notað af öllum. Í tilfelli sonar míns taldi hann einu réttu leiðina vera að skila sínum i-Pad.

Forgangsröðun í kennslu

Sonur minn hefur verið í árgangi þar sem að ekki hefur verið vinnufriður í mörg ár vegna óláta í bekknum. Eftir ítrekaðar beiðnir margra foreldra og vinnu skólastjórnenda fékkst loks í gegn úrlausn sem fólst í því að bekkjum var fjölgað úr tveimur í þrjá. Loks komst á vinnufriður þar sem að kennarar náðu í fyrsta sinn aga og vinnufriði. Nú bregður hins vegar svo við að spyrða á saman bekkina aftur, væntanlega til að spara pening sem er nokkuð kaldhæðnislegt í ljósi nýlegrar i-Pad-væðingar (i-Pad er reyndar dýrasta spjaldtölvan á markaði). Eftir eitt gott ár er með öðrum orðum verið að taka áhættuna á því að ólætin byrji aftur og vinnufriður í skólanum verði enn eitt árið fokinn út í veður og vind, með tilheyrandi kvíða fyrir fjölda nemenda.

Það er til peningur til þess að gefa nemendum dýra spjaldtölvu sem margir fræðimenn erlendis hafa sett spurningamerki við að sé raunverulega rétta leiðinn, en ekki er hægt að leggja fjármagn í að  tryggja eðlilegan vinnufrið í kennslustofu.

Stefna stjórnmálaflokka

Margir stjórnmálaflokkar hafa undanfarið komið fram með áherslur í skólamálum í undanfara sveitarstjórnarkosninga. Ég vil gjarnan vita hver afstaða þeirra er til notkunar á forritum í eigu stórfyrirtækja sem veita þeim aðgang að gögnum nemenda. Hvernig hafa þeir tryggt í innleiðingu Google Classroom að ekki sé safnað neinum upplýsingum um nemendur eða nethegðun þeirra? Einnig vil ég vita hvort að það sé virkilega ekki meiri áhersla á að vinnufriður sé til staðar fyrir börnin okkar í kennslustofunni, heldur sett í forgang að gefa krökkum skemmtilegar tækninýjungar?  Spurningin er ekki að fara aftur til 1984 hvað varðar kennslutækni heldur að við sjálf innleiðum og notum tækni með sama gagnrýna hugarfarinu og við erum að reyna að predika fyrir börnum okkar.

Már Wolfgang Mixa
faðir og lektor í fjármálum við HR.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2