Fyrir síðustu Alþingiskosningar voru frambjóðendur allra flokka nánast sammála um tvennt; að bæta kjör þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu (þ.e. öryrkja og ellilífeyrisþega), og afnema skerðingar þess fólks sem með lögbundnum þvingunum hefur verið ýtt út af vinnumarkaðnum (eins vitlaust og það nú er).
Eftir kosningar hefur lítið sem ekkert heyrst frá þessum sömu frambjóðendum (sem kosnir voru) um framangreind málefni – og verður að öllum líkindum ekki af fenginni reynslu.
Opinberar stofnanir og fyrirtæki, hvort sem um er að ræða hjá ríki eða sveitarfélögum, hafa á að skipa fjölda fólks á launaskrá sem ætlað er að þjónusta aðra þá er til þess þarf að leita einhverra hluta vegna. Ætla mætti að slíkum málaumleitunum fólks væri jafnan tekið fagnandi og markmiðið væri fyrst og fremst að leita lausna því til handa. Raunin er hins vegar önnur. Þurfi fólk að leita til opinberra stofnana rekst það oftar en ekki á veggi. Viðbrögðin eru gjarnan sú að erindum er ekki svarað, vísað er til þess að stofnun áskilji sér nokkra mánuði til viðbragða, erindum er vísað frá vegna þess að þau heyra undir aðra opinbera stofnun (þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að hlutaðeigandi stofnun eigi að áframsenda erindið til annarrar viðeigandi) eða reynt er allra leiða til að komast hjá því að veita viðkomandi tilhlýðilega eða sanngjarna þjónustu. Í sumum tilvikum eru viðbrögð starfsfólks stofnunar beinlínis röng þrátt fyrir öll rök er hníga að hinu gagnstæða.
Það er óneitanlega skemmtilega fyrir þá er til opinberra stofnana þurfa að leita að fá a.m.k. jákvæð viðbrögð og vitneskju um að reynt verði að bregðast við erindum þeirra í stað sífelldra varnarviðbragða og tómlætis.
Hafa ber í huga að fólk, hvort sem það er í framboði fyrir stjórnmálaflokka eða í starfi fyrir opinbera stofnun, verður ekki metið af orðum sínum, heldur verkum. Flokkurinn og/eða stofnunin verður að sama skapi metin að verðleikum, en ekki tómlæti, aðgerðarleysi eða andstöðu við þá er hagsmuna eiga hlut að máli.
Kveðja,
Ómar Smári Ármannsson