fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkÁbyrgðarhluti að tryggja rekstur og þjónustu

Ábyrgðarhluti að tryggja rekstur og þjónustu

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Á tímum sem þessum er mikilvægasta verkefni bæjarstjórnar að tryggja rekstur bæjarfélagsins og góða þjónustu við íbúana. Til að rísa undir þeirri ábyrgð samþykkti bæjarstjórn á dögunum aðgerðaáætlun í 11 liðum til að bregðast við stórfelldum áhrifum sem bæjarfélagið verður fyrir vegna COVID-19.

Tekjufall og aukinn kostnaður

Rétt eins og hjá öðrum bæjar- og sveitarfélögum munu tekjur Hafnafjarðar dragast mikið saman en útgjöldin stóraukast. Það er því hart sótt að bæjarsjóði og við því þarf og verður að bregðast nú þegar. Samkvæmt fyrirliggjandi greiningum má ætla að tekjufallið og aukinn kostnaður vegna COVID-19 verði um 5-6 milljarðar króna á þessu ári og því næsta. Upp í þetta gat verður að stoppa og það verður einungis gert með aðhaldsaðgerðum, lántökum og/eða sölu eigna í samræmi við aðgerðaáætlun bæjarfélagsins. Tillögur að aðhaldsaðgerðum liggja þegar fyrir og munu þær skila bæjarfélaginu nærri 150 milljónum króna. Rauði þráðurinn í aðhaldsvinnu okkar er að verja þjónustuna og viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Viðreisn; niðurskurður og uppsagnir

Oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði kallar hins vegar eftir róttækari aðhaldsaðgerðum, með tilheyrandi og augljósum niðurskurði á þjónustu við íbúa og uppsögnum á starfsfólki bæjarfélagsins. Hann skrifar í nýlegri blaðagrein: „Það að vera við stjórn þýðir að fólk verður að vera reiðubúið að aðlaga regluleg útgjöld að reglulegum tekjum. Það að selja góða eign til að veigra sér við að taka erfiðar ákvarðanir er dálítið eins og að svindla í leiknum. Fyrir mig persónulega þá óttast ég ekki þær áskoranir sem fram undan eru.“ (Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar).

Þetta skrifar hann vegna ákvörðunar meirihluta bæjarráðs um að kanna sölu á hlut bæjarfélagsins í HS Veitum. Sá möguleiki er til skoðunar, eins og margir aðrir. Þannig fáum við úr því skorið með fullri vissu hvað hagkvæmast og skynsamlegast sé að gera við þessar aðstæður.

Bregðast við núna, eða síðar?

HS Veitur eru, samkvæmt þeim greiningum sem gerðar voru fyrir um ári síðan, metnar á um 23 milljarða króna. Hafnarfjarðarbær á 15,42% hlut í fyrirtækinu, sem jafngildir um 3,5 milljörðum króna. Fáist ekki sú upphæð fyrir hlutinn og hagkvæmara reynist að taka stórt lán og greiða fjármagnskostnaðinn með væntum arðgreiðslum, verður hluturinn ekki seldur. Þetta hefur alltaf legið fyrir. Til að setja þetta í skiljanlegt fjárhagslegt samhengi skal bent á að fjárstreymi til Hafnafjarðarbæjar vegna hlutarins í HS Veitum hefur verið 65 milljónir króna á ári. Þá skal einnig tekið fram að salan mun ekki hafa áhrif á verð til neytenda.

Fyrirséð er að bæjarfélagið þurfi að taka lán, hvort sem til sölu komi eður ei, og er það því skylda okkar og ábyrgð að velta við öllum steinum og kanna allar leiðir til að tryggja þjónustu við íbúa Hafnafjarðar og hag bæjarins bæði í nútíð og framtíð. Mikilvægt er að lágmarka þann reikning sem fellur til vegna COVID-19 og börnin okkar þurfa að greiða síðar. Það er verkefnið.

Ágúst Bjarni Garðarsson,
formaður bæjarráðs

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2