Vegna greina sem fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar skrifuðu í Fjarðarfréttir þann 18. apríl er rétt að vekja athygli á eftirfarandi.
Miðbæjarskipulagið
Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, virðist vera utangátta í stjórnkerfinu þegar hann fullyrðir að verið sé að halda skipulagsvinnu miðbæjarins leyndri. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, í skipulags- og byggingarráði og í bæjarráði hafa getað hvenær sem er í ferli skipulags miðbæjarins lagt fram tillögur sama efnis og Friðþjófur sér sig knúinn til að skrifa um. Miðbæjarskipulagið hefur verið til umfjöllunar í skipulags- og byggingarráði síðustu ár. Undirbúningur er mikill og vandasamur. Húsakönnun og aðrir þættir sem snerta m.a. lóðaleigusamninga, gildandi skipulag og réttindi lóðarhafa hafa verið framkvæmdir og skoðaðir og eru innlegg í væntanlegt skipulagsferli. Nýverið skipaði bæjarráð starfshóp um skipulag miðbæjarins. Starfshópinn skipa þrír kjörnir fulltrúar úr meiri- og minnihluta, fulltrúi íbúa í miðbænum, fulltrúi fyrirtækja í miðbænum og fulltrúi Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Með skipan starfshópsins er skipulagsvinnan formlega komin af stað og að sjálfsögðu verður sú vinna í opnu ferli í góðu samráði við íbúa Hafnarfjarðar.
Nýbyggingarsvæði
Bæjarfulltrúi og varaáheyrnarfulltrúi í skipulags- og byggingarráði báðir í Viðreisn fara mikinn í grein sinni. Það er svipað með þá félaga og þann sem skrifaði um miðbæjarskipulagið að ekki ein tillaga um uppbyggingu eða nýtt skipulagssvæði hefur komið frá fulltrúum Viðreisnar á því ári sem sá flokkur hefur átt fulltrúa í bæjarstjórn og skipulags- og byggingarráði. Þau ykkar sem fylgst hafa með skipulagsmálum hér í Hafnarfirði vitið að öll nýbyggingarsvæði liggja undir háspennulínum, að línurnar áttu samkvæmt samkomulagi að fjarlægja á síðasta ári, að framkvæmdaleyfi til Landsnets vegna Lyklafellslínu var kært og fellt úr gildi en Lyklafellslína er forsenda niðurrifs línanna. Á þessu ári verða línurnar færðar frá nýbyggingarsvæðum í Skarðshlíð og Hamranesi og eru lóðir í Skarðshlíð 3 tilbúnar og Bjarg íbúðarfélag komið langt í sinni skipulagsvinnu í Hamranesinu. Þetta eiga allir bæjarfulltrúar og allt ráðsfólk að vita. Einnig má geta þess að lokið er við gerð rammaskipulags á Hraunum vestur – fimm mínútna hverfið, gert er ráð fyrir um 2.500 íbúðum á svæðinu auk verslunar og þjónustu. Lóðarhafar eru þegar byrjaðir á deiliskipulagsvinnu á því svæði. Rammaskipulag hafnarsvæðisins gengur vel og verður kynnt íbúum í byrjun sumars. Unnið er að skipulagi á nokkrum reitum í bænum og má nefna að lokið er vinnu á nokkrum reitum. Það er rétt sem kemur fram í grein þeirra félaga að „skipulagsvinna er tímafrek“. Í því samhengi erum við mjög ánægð með t.d. ganginn í skipulagsvinnu á Hraunum vestur og á hafnarsvæðinu. Við skorum á fulltrúa Viðreisnar að koma með tillögur um svæði til uppbyggingar í Hafnarfirði en ekki bara innantómar fullyrðingar sem ekki standast skoðun og eru einungis til þess fallnar að slá ryki í augu bæjarbúa.
Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs
Greinin birtist í 16. tbl. Fjarðarfrétta, 17. árg., 1. maí 2019