fbpx
Mánudagur, janúar 6, 2025
HeimUmræðanAf hverju seldi meirihlutinn mjólkurkúna?

Af hverju seldi meirihlutinn mjólkurkúna?

Sigurður P. Sigmundsson skrifar

Það hefur aldrei gefist vel til framtíðar að selja bestu mjólkurkúna til að bregðast við tímabundnum vanda. Það er eins og að pissa í skóinn sinn. Nú berast þær fréttir að hagnaður HS Veitna hafi aukist um 68% á árinu 2021 og numið kr. 949 milljónum. Virði fyrirtækisins hefur þar með aukist töluvert milli ára. Hafnarfjörður fær engan arð því bæjarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna og framsóknar seldi 15,4% hlut bæjarins í fyrirtækinu haustið 2020. Fullnægjandi skýringar hafa ekki fengist á því af hverju meirihlutanum lá svona mikið á að keyra þessa sölu í gegn og af hverju Kviku banki var handvalinn til að sjá um söluna. Sú skýring var gefin að salan væri gerð með hag bæjarbúa að leiðarljósi. Minnihlutinn í bæjarstjórn lagðist gegn sölunni og hélt fram mikilvægi þess að fyrir lægju ítarlegar upplýsingar og útreikningar áður en kæmi til ákvörðunar um hugsanlega sölu. Á þetta var ekki hlustað.

Þegar salan fór fram var ekki ljóst hver yrðu áhrif Covid-19 faraldursins á fjárhag bæjarins. Skýringar meirihlutans á þeim tíma voru því getgátur einar enda hefur komið í ljós að áhrif faraldursins á bæjarsjóð hafa orðið mun minni en áætlað var. Margt er enn óljóst hvað varðar þessa sölu. Meirihlutinn hefur ekki gefið skýr svör um það í hvað söluandvirðinu hefur verið varið. Einhver hluti fór til greiðslu afborgana lána og einhver hluti til reksturs. Það er hins vegar ekki hægt að sjá í bókhaldi bæjarins um hvaða upphæðir er að ræða eða hvernig þeim er skipt milli áranna 2020 og 2021.

Fregnir af miklum hagnaði HS Veitna benda sterklega til þess að ákvörðun meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknar um sölu á hlut bæjarins í fyrirtækinu hafi verið röng og þar með til skaða fyrir bæjarfélagið. Þá hefur Hafnarfjarðarbær ekki lengur neitt um það að segja hver þróun starfsemi HS Veitna verður á athafnasvæði þess. Reykjanesbær ákvað hins vegar að halda eignarhlut sínum í HS Veitum þrátt fyrir að vera í þrengri stöðu fjárhagslega.  Er ekki bara best að meirihlutinn í Hafnarfirði taki ábyrgð á gerðum sínum?

Sigurður P. Sigmundsson, frambjóðandi Bæjarlistans.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2