fjarðar á sitt nærumhverfi!
Í aðdraganda síðustu kosninga töluðu núverandi meirihlutaflokkar hér í bænum mikið um aukna aðkomu bæjarbúa að ákvörðunum um sitt nærumhverfi, íbúalýðræði skyldi eflt. Sáttmáli þeirra eftir kosningar, sem var grunnur að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar, kvað á um þetta en minna hefur verið um efndir síðustu þrjú ár en efni standa til.
Á meðan nágrannasveitafélög okkar eru á hraðferð í þessa átt þá situr þriðja stærsta sveitarfélag landsins hjá og aðhefst lítið í þessa veru.
Í Kópavogi, þar sem ég hef starfað sem skólastjóri síðasta áratuginn, er mikill kraftur í verkefni sem nefnist Okkar Kópavogur og er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda – og viðhaldsverkefna í bænum. Í það verkefni fara ríflega 200 milljónir á yfirstandandi fjárhagsári.
Markmið slíks verkefnis er að hvetja íbúa til að taka þátt í málefnum sem varða nærumhverfi þeirra. Íbúar leggja fram hugmyndir og útdeila fjármagni í smærri framkvæmdir á vegum bæjarins með íbúakosningu.
Í Reykjavík hefur einnig unnið ötullega að framkvæmd sambærilegs verkefnis á umliðnum árum og ber verkefnið þar heitið Hverfið mitt. Þar eru nýafstaðnar kosningar þar sem kosið var um framkvæmdir í hverfum borgarinnar og þar eru 450 milljónir til ráðstöfunnar.
Það er leitt til þess að hugsa að íbúar í Hafnarfirði hafi ekki möguleika á svipuðum áhrifum á sitt nærumhverfi í gegnum lýðræðisleg verkefni eins og þau sem nefnd eru hér að ofan og hafa komist í framkvæmd í nágránnasveitarfélögum okkar. Aukið íbúalýðræði ætti að vera okkur sem störfum fyrir hag og velferð bæjarbúa hér í bæ ofarlega í huga.
Ég hef í gegnum veru mína í umhverfis- og framkvæmdaráði vakið máls á þessu og barist fyrir því að stígin verði raunveruleg og markviss skref í þessa átt. Undir sjónarmið mín hafa fulltrúar meirihlutans tekið en þar fylgir ekki hugur máli í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 sem nú er til umfjöllunar í bæjarstjórn. Þar hafa verið settar 10 milljónir í eitthvað sem kallað er íbúapottur í áætluninni. Að ætla svo lága upphæð í svo þarft verkefni er hjóm eitt og betur heima setið en af stað farið þegar hugur fylgir ekki betur máli en raun ber vitni hjá meirihlutanum í Hafnarfirði.
Íbúar Hafnarfjarðar eiga það skilið að þeim sé treyst þegar kemur að ákvörðunum um nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í þeirra nærumhverfi.
Að því þarf að vinna með krafti, áræðni og af heilum hug!
Friðþjófur Helgi Karlsson
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
á sæti í umhverfis- og framkvæmdaráði