fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanBæjarstjórn Hafnarfjarðar og sagan af Bakkabræðrum sem reyndu að bera inn birtuna

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og sagan af Bakkabræðrum sem reyndu að bera inn birtuna

Flestir þekkja söguna af Bakkabræðrum sem byggðu sér nýtt hús án glugga. Birtuna ætluðu þeir svo að bera inn í húsið með því að bera sólina inn í trogum.

Þessi saga af þeim bræðrum minnir um margt á bæjarstjórn Hafnarfjarðar og verkefni Coda Terminal (CT), sem fyrirtækið Carbfix stendur fyrir. Verkefnið snýr að því að flytja frá stóriðju Evrópu 3 milljónir tonna af koldíoxíð árlega og dæla í berg í mikilli nálægð við íbúðarhverfi Hafnarfjarðar.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem á einhvern ótrúlegan hátt, keypti hugmyndina um að gera Hafnarfjörð að grænasta bæ í heimi með því að skrifa undir viljayfirlýsingu um að heimila einkafyrirtæki flytja útblástur frá stóriðju Evrópu og dæla niður í landi Hafnarfjarðar. Þar með að gera þúsundir íbúa Hafnarfjarðar aðila að tilraunaverkefni, sem þeir voru aldrei spurðir hvort þeir vildu taka þátt í.

Ef Coda verkefnið nær fram að ganga mun það binda um 0,005% til 0,008% af árs koldíoxíðlosun heimsbyggðarinnar og þetta hlutfall á eingöngu við ef verkefnið fer í fulla starfsemi og varir í 30 ár sem hvoru tveggja er alls óvíst. Á síðasta ári losaði heimsbyggðin um 37 milljarða tonna koldíoxíð og aukningin ein og sér árið 2023 var 410 milljón tonn. Það sér það því hver sem vill að þetta verkefni er ekki að fara breyta neinu varðandi loftslagið og þaðan af síður hamfarahlýnun af völdum loftslagsbreytinga. Það sem er hins vegar alveg ljóst að verkefnið hefur í för með sér gríðarlega óvissu og áhættu fyrir íbúa sem koma til með búa á áhrifasvæði þessa verkefnis og óvissan mun vara í áratugi. Hætta á smáskjálftum í 2 km radíus frá niðurdælingarholum er staðreynd en mörg hundruð heimila eru innan við 2 km frá þessum holum þar sem koldíoxíði verður dælt niður ásamt milljónum tonna af grunnvatni. Þau hverfi sem verða fyrir mestum áhrifum eru Vallarhverfið, Hamrahverfið, Skarðshlíð og Ásland.

Til þess að verkefnið nái fram að ganga þarf að fara í eina stærstu framkvæmd síðari ára en það er stækkun Straumsvíkurhafnar þar sem sérútbúin díselknúin skip munu leggjast að og dæla 12000 til 20000 tonnum af fljótandi koldíoxíð í gríðarstóra tanka sem staðsettir verða á höfninni. Fyrsti viðlegukanturinn er eingöngu hugsaður fyrir verkefni Coda Terminal en það er alveg ljóst að þetta verkefni er tilraun og eins og fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sagði sjálfur „þá getur þetta allt eins farið illa“. En fyrir þá sem ekki vita þá á Carbfix uppruna sinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Eru íbúar Hafnarfjarðar tilbúnir til þess að taka lán fyrir milljarða fyrir hafnarframkvæmd fyrir einn viðskiptavin í tilraunastarfsemi

Þessi mikla stækkun hafnarinnar og byggingar þar munu hafa mikil áhrif á íbúa Hvaleyrarholts með hljóð og sjónmengun einnig munu þungaflutningar aukast til muna um Reykjanesbrautina. Þessi áhrif geta hæglega orðið til þess að fasteignaverð í umræddum hverfum lækki og íbúar upplifi óvissu og ónæði.

Hvernig geta kjörnir fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar tekið þessa áhættu fyrir hönd þúsunda íbúa Hafnarfjarðar, er þeirra hlutverk ekki einmitt að gæta að hagsmunum bæjarbúa og standa vörð um heimili þeirra og umhverfi? Af hverju eiga fasteignaeigendur í Hafnarfirði að þurfa að taka áhættu fyrir einkafyrirtæki sem mun hagnast á því að flytja inn koldíoxíð frá stóriðju Evrópu. Hver er ábyrgur ef heimili og nærumhverfi fólks í Hafnarfirði verða fyrir skaða vegna þessa verkefnis CT?

Carbfix og Hafnarfjarðarbær hefur verið tíðrætt um að niðurdælingin muni verða á röskuðu hrauni á svæði sem nú þegar er skipulagt sem iðnaðarsvæði. Þetta er rangt! Langflestar niðurdælingar holurnar verða á óröskuðu hrauni sem er fallega mosa og kjarri vaxið. Nú liggja fyrir breytingar á aðalskipulagi sem ganga út á það að stækka iðnaðarsvæðið sunnan Vallarhverfis. Þetta gerir Carbfix kleift að dæla útblæstri Evrópu niður í berglög í landi Hafnarfjarðar. Komi til þess að Hafnarfjarðarbær samþykki þessar breytingar á aðalskipulagi ætla íbúar að safna undirskriftum 25% kosningabærra Hafnfirðinga og krefjast þess að þessar breytingar á aðalskipulagi verði settar í íbúakosningu.

Líkt og Bakkabræður höfðu ekki erindi sem erfiði með að bera sólarljósið inni nýja húsið sitt mun Hafnarfjörður ekki verða grænasti bær í heimi með því að taka á móti útblæstri stóriðju Evrópu og dæla honum í berg við íbúðabyggð Hafnarfjarðar.  Hið sanna er að losun koldíoxíðs í landi Hafnarfjarðar mun aukast stórkostlega með verkefni Coda Terminal, valda miklu jarðraski og mögulega óafturkræfum áhrifum á viðkvæm lífríki og náttúru.

Ef stefna bæjarstjórnar í Hafnarfirði er að gera bæinn þann grænasta í heimi er réttast að gera það með þeim leiðum sem vænlegastar eru til árangurs og allir sem vinna að loftslagsmálum eru sammála um, en það er að draga úr losun koldíoxíðs en ekki auka losun eins og mun gerast með tilkomu Coda Terminal.

Elínrós Erlingsdóttir,
svæfingahjúkrunarfræðingur og íbúi Vallarhverfis.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2