fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimUmræðanBætt þjónusta í sorphirðu og flokkun í Hafnarfirði vorið 2023

Bætt þjónusta í sorphirðu og flokkun í Hafnarfirði vorið 2023

Sérsöfnun í 4 flokka við heimili og stofnanir

Nýtt kerfi í sorphirðu sem verður innleitt í Hafnarfirði á vormánuðum 2023 mun fela í  sér tíðari losun en setur jafnframt nýjar skyldur á okkur íbúa varðandi sérsöfnun í fjóra flokka við heimili.  Jafnframt verður grenndarstöðvum fjölgað og bætt aðgengi að þeim.

Starfshópur á vegum umhverfis- og framkvæmdaráðs hefur að undanförnu unnið að undirbúningi að nýju útboði fyrir sorphirðu í Hafnarfirði þar sem nokkrar breytingar á núverandi fyrirkomulagi munu líta dagsins ljós.  Helstu breytingin verður sérsöfnum í fjóra flokka við heimili en þessi flokkar eru:  Lífrænn úrgangur og blandaður úrgangur sem mun fara í eina tvískipta tunnu og pappír og plast sem mun fara í aðra tvískipta tunnu.  Þetta verður meginregla við sérbýli en einnig geta heimili óskað eftir að hafa pappír og plast í tveimur tunnum.  Samráð verður haft við fjölbýli um fjölda kerja til að uppfylla sérsöfnun og þau munu fá sérstakar tunnur fyrir lífræna flokkun. Samhliða innleiðingu á nýju kerfi fyrir heimili mun Hafnarfjarðarbær taka upp samskonar sérsöfnun í 4 flokka við sínar stofnanir. Allar grenndarstöðvar munu taka á móti pappír/pappa, plasti, gleri, málmi og textíl. Einungis með samstilltu átaki íbúa og sveitarfélagsins munum við ná að minnka blandaðan úrgang sem er stórt mál fyrir samfélagið og framtíðina og við þurfum öll að taka þátt í því verkefni.

Samræmd flokkun á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við lög og Evróputilskipun

Þetta fyrirkomulag sérsöfnunar í 4 flokka er tillaga sérfræðinga allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en kallað hefur verið eftir samræmdu flokkunarkerfi að hálfu íbúa. Þetta kerfi er jafnframt í samræmi við tilskipun Evrópuráðsins og Alþingis nr. 851/2018 þar sem kveðið er á um að sérstök söfnun skuli vera á að minnsta kosti pappír, málmum, plasti, gleri og textíl og aðskilja  skal þessi efni til að tryggja endurvinnslumöguleika. Í júní 2020 var lögð fram ný aðgerðaráætlun í loftlagsmálum af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem hefur áhrif á meðhöndlun úrgangs (Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, 2020). Þar má helst nefna þrjár aðgerðir sem settar eru fram til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi. Þær aðgerðir eru: Urðunarskattur, bann við urðun lífræns úrgangs og minni matarsóun.

Erum í dag á rauðu ljósi í flokkun og endurvinnslu

Ef notuð er samlíking við umferðarljós sem við öll skiljum að eru reglur sem okkur ber að virða til þess að tryggja flæði og lágmarka slysahættu þá erum við sem samfélag að aka yfir á rauðu ljósi alla daga þegar kemur að sorpflokkun og úrvinnslu hjá Sorpu.  Staðreyndin er sú að 78-87% úrgangs frá heimilum er óendurvinnanlegur úrgangur og einungis mjög lítill hluti af endurvinnanlegum efnum skilar sér til endurvinnslu.  Við höfum skuldbundið okkur til þess að minna en 55% af úrgangi frá heimilum verði óendurvinnanlegur úrgangur fyrir árslok 2025 þannig að það er verk að vinna og að árið 2035 verði minna en 10% af úrgangi urðað.

Þurfum að komast á græna ljósið

Til þess að fá grænt ljós þurfa öll heimili að taka þátt í sérsöfnun þegar nýtt kerfi verður innleitt og hafa ber í huga að þetta kerfi er ekki valkvætt.  Ávinningurinn er mikill og í fyrsta lagi er það stórt umhverfismál fyrir komandi kynslóðir að minnka urðun en einnig er það svo að kostnaður við blandaða úrganginn vex ár frá ári þannig að það er bæði samfélagslegur og  fjárhagslegur hvati að flokka.

Helga Ingólfsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2